„Ég er sonur þinn“. Um krossfestingarmyndir Chagalls

[container]

Um höfundinn
Pétur Pétursson

Pétur Pétursson

Pétur Pétursson er prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Sjá nánar

Nú stendur yfir viðamikil yfirlitssýning á málverkum Marc Chagalls, eins af meisturum 20. aldar, í gyðinglega safninu í New York í Bandaríkjunum. Þessi sýning sem spannar yfir fjórða og fimmta áratug hefur vakið mikla athygli. Eitt af því sem mest er rætt um er hvers vegna myndir af Jesú Kristi á krossinum séu svo áberandi í verkum meistarans frá þessu tímabili og hvers vegna hann sem gyðingur hafi yfirleitt málað myndir af höfundi kristindómsins þar sem gyðingar hafna því að hann hafi verið messías og sonur Guðs, þ.e. holdtekja Guðs.

Marc Chagall (1887-1985), sem var fæddur og uppalinn í Rússlandi, var alla tíð trúr sínum gyðinglega bakgrunni, nánar tiltekið Haddish. Þótt hann tæki ekki sem fullorðinn maður þátt í reglubundnu helgihaldi í sýnagógunni, samkomuhúsi gyðinga, virðist honum aldrei hafa dottið í hug að snúast til kristinnar trúar eins og Vava seinni eiginkona hans og ýmsir vinir hans meðal listamanna. Þrátt fyrir þetta er krossfesting Jesú eitt af meginstefjunum í myndlist hans. Þetta hefur vakið undrun margra, ekki síst gyðinga, sem eiga erfitt með að skilja þetta og sérstaklega hvað Guð kristinna manna sé að gera í myndum Chagalls.

Gyðingar vilja að sjálfssögðu eigna sér þennan meistara nútímamálverksins sem á sinn snilldarlega hátt túlkaði hinn yiddíska hugsunarhátt og söguheim, sem er alþýðleg útgáfa af menningu austur-evrópskra og rússnesskra gyðinga. Alla tíð var Chagall eiginlegast að tjá sig á yiddísku og hann talaði aldrei almennilega rússnesku eða frönsku þótt hann dveldi lengstan hluta ævi sinnar í Frakklandi. Vava stóð fyrir því að lík hans var jarðsett í kristnum kirkjugarði í Frakklandi. Við þá athöfn flutti ráðherra menntamála Frakka ávarp, en í lok hennar sté fram óþekktur maður og söng óbeðinn bæn yfir látnum að hætti gyðinga (Kaddish). Ólíklegt er að Chagall hefði haft eitthvað á móti því, en hann virtist oftast hafa lítinn áhuga á hinum formlegu helgisiðum trúarbragðanna og skipti sér ekki af því þótt Vava væri skráð í Rómversk-kaþólsku kirkjuna. Þó hafði hann áður reynt að fá Virginíu ástkonu sína og barnmóður til að snúast til gyðinglegrar trúar.

Hvíta krossfestingin
Hvíta krossfestingin

Ein þekktasta mynd Chagalls, Hvíta krossfestingin, er gerð árið 1938, rétt áður en síðari heimstyrjöldin brast á. Þá höfðu nasistar í Þýskalandi undir forystu Hitlers fyrir löngu hafið ofsóknir sínar gegn gyðingum og m.a. haldið sýningu á nútímalist sem þeir töldu úrkynjaða. Þar hæddu þeir og smánuðu listamennina og eyðilögðu sum listaverkanna. Sjálfur átti Chagall verk á þessari sýningu. Sjá má af Hvítu krossfestingunni að enn var von en hún birtist í ljósgeislanum sem hinn krossfesti er í. Á þessum tíma eru nasistar að brenna synagógur og margir þýskir gyðingar eru þegar á flótta. Með þessari mynd af hinum þjáða manni sem hæddur var opinberlega sem konungur gyðinga vildi Chagall vekja hinn kristna heim til vitundar um þá helför sem hafinn var og hvað var betra til að hrófla við samvisku Evrópumanna en Kristur krossfestur? Ein helsta réttlætingin á ofsóknum gegn gyðingum í gegnum aldirnar var einmitt að þeir hefðu tekið Jesú Krist af lífi.

Chagall þekkti fyrra stríðið af eigin raun því að þá lokaðist hann inni í Rússlandi og var skráður í herinn. Eftir stríðið tók hann þátt í að móta listastefnu byltingarinnar, en sá brátt að honum var ekki vært og fór því aftur til Frakklands. Þangað hafði hann fyrst komið haustið 1910 til þess að fullnuma sig í list sinni og læra af því nýjasta sem var að gerast í París á þeim árum. Árið 1941 varð hann svo að flýja þaðan til Bandaríkjanna undan nasistum  og dvaldi þar í sjö ár. Á myndinni Hvíta krossfestingin má sá rauða herinn koma þjótandi, en þeir voru til sem vonuðu um tíma að hann myndi koma gyðingum til aðstoðar. Þegar Stalín gerði samning við Hitler í lok sumars 1939 var sú von úti.

Niðurstigningin af krossinum
Niðurstigningin af krossinum

Myndin Niðurstigningin af krossinum er máluð rétt eftir komuna til Bandaríkjanna. Hún sýnir feiginleika listamannsins við að hafa sloppið með konu sinni Bellu og dótturinni Ídu. Hann málar andlit sitt á Jesú Krist og nafn sitt setur hann á krossinn í stað INRI, Jesús frá Nasaret konungur Gyðinga. Engill er tilbúinn með litaspjald og pensla svo að listamaðurinn geti farið að vinna aftur. Undir krossinum er fólk sem býður Chagall í gervi Jesú velkominn. Hann hefur lifað krossfestinguna af.

Samsömun við Jesú

Þetta bendir til að krossfestingin hafi ekki bara verið pólitískt tákn í list Chagalls heldur hafi hann sjálfur og persónulega samsamað sig gyðingnum Jesú í lífi sínu. Sjálfur sagði Chagall að frá árinu 1910 hafi myndin af Jesú krossfestum leitað á hann í tengslum við gyðingafordóma og ofsóknir á hendur gyðingum í rússneska keisaraveldinu. Einn besti vinur hanss á fyrstu Parísarárum hans var ljóðskáldið  Blaise Cendrars, sem oft átti hugmyndir að þeim nöfnum sem  Chagall gaf verkum sínum. Eflaust hefur hann þekkt hugsanir Chagalls vel enda urðu þær honum að yrkisefni eins og sést af eftirfarandi ljóð sem hann samdi til vinar síns þar sem hann líkir honum við Krist:

Kristur
Hann er Kristur
Á krossinum í barnæskunni sinni
Hann framdi sjálfsvíg á hverjum einasta degi
Allt í einu hættir hann að mála
Hann var vakandi
En sefur nú
Hann kæfir sjálfan sig í hálsbindinu sínu
Chagall er hissa á því að hann skuli vera á lífi

Tekinn niður af krossi
Tekinn niður af krossi

Á flestum krossfestingarmyndunum er Jesús sýndur með bænasjal gyðinga um mittið. Þó er að finna eina undantekningu. Á myndinni Tekinn af krossi frá árinu 1951 er hann nakinn. Adráttaraflið sem hið „föla andlit“ Jesú Krists hafði olli Chagall svo miklu hugarangri að hann leitaði sér andlegrar leiðbeiningar sér meiri manna í trúaefnum a.m.k. tvisvar sinnum. Í fyrra skiptið leitaði hann uppi þekktasta rabbía gyðinga í Rússlandi, en fékk ekki  ákveðið svar frá honum. Í síðara skiptið ræddi hann við yfirrabbía Frakklands og skrifaði einnig Chaim Weizmann fyrsta forseta Ísraelsríkis og bað um ráð. Þá hafði hann verið beðinn um að gera glerlistaverk fyrir kristna kirkju í Frakklandi og hann hafði áhyggjur af því að það yrði lagt út á verri veg. Forsetinn var vitur og reyndur maður og hvatti Chagall til að fylgja samvisku sinni. Hann tók að sér verkefnið og síðar fleiri verk fyrir kristnar kirkjur.

Golgata
Golgata

Fyrsta myndin sem setti Chagall á kort auðugra listaverkasafnara var Golgata sem hann málaði í París árið 1912 þjáður af heimþrá. Þessi mynd er undir greinilegum áhrifum af kúbismanum sem þá var að brjóta sér leið í listaheiminum. Þar er Jesús saklaust barn sem þjáist á krossinum og undir honum eru foreldrar, sem hann síðar sagði að væru sínir eigin, nánar tiltekið allir gyðingar sem eiga börn. Gyðingar máttu þola ofsóknir í Rússlandi eins og í löndum Austur-Evrópu löngu fyrir stríð og voru m.a. sakaðir um að ræna kristnum börnum og drekka úr þeim blóðið.

Sjálfsmynd með klukku fyrir framan krossfestingu
Sjálfsmynd með klukku fyrir framan krossfestingu

Chagall missti Bellu, fyrri konu sína, á árunum í Bandaríkjunum og syrgði hana mjög en eignaðist fljótt ástkonu og barn með henni. Í þeirri sálarklemmu sem það olli honum verður hinn krossfesti honum enn og aftur yrkisefni í mynd. Á myndinni Sjálfsmynd með klukku fyrir framan krossfestingu frá árinu 1947 málar hann sjálfan sig sem rauðan asna við málaratrönurnar sem er umvafinn ástkonunni en í krossfestingarmyndinni sem er í vinnslu hallar látin kona hans í brúðarskarti sér að Jesú. Í myndinni Sál borgarinnar frá sama ári   er hann að glíma við þetta vandamál einnig. Hér er hinn kossfesti einnig nálægur og eiginkonan látna svífur niður af himni í brúðarklæðum en ástkonan er þarna á milli þeirra með son þeirra Davíð dulbúinn sem hana. Listamaðurinn er með tvö andlit, annað starir á hinn krossfesta og hitt mænir grænt á birtingu eiginkonunnar elskuðu.

Sál borgarinnar
Sál borgarinnar

Foreldrar Chagalls voru alþýðufólk sem þurftu að strita til að hafa í sig og á og þau héldu trú forfeðra sinna í heiðri. Faðir Chagalls vann á síldarmarkaði og segja má að síld hafi verið á borðum heima hjá þeim á hverjum degi. Oft má sjá síld og fisk í verkum Chagalls og er þar líklega vísun í fæðuna á borðum heima. En með það í huga hve Jesúmyndin var honum mikilvæg gæti þetta einnig verið kristsvísun. Íkonahefð austurkirkjunnar var það trúarlega myndmál sem var ríkjandi í heimabyggð Chagalls og þar snýst allt um Jesúm Krist. Þetta hefur haft áhrif á drenginn og mynd hans grafið um sig í sál hans og brotið sér leið á léreftið þegar listamaðurinn var að glíma við sjálfan sig, arfleifð sína og afstöðu til umhverfisins.

Chagall samdi sjálfur ljóð og komið hefur út ljóðabók eftir hann á rússnesku. Í einu þeirra ávarpar hann Guð og setur sig þar í spor sonarins og spyr um merkingu þjáningarinnar og köllun sína.

Til föðurins

Ég er sonur þinn, ég skríð fæddur á Jörðu.
Þú gafst mér liti í hendur, gafst mér pensil,
en hvernig ég get málað ásjónu þína veit ég ekki.
Er þetta himininn? Hvað fellur til Jarðar?
Hjarta þitt? Rústir borga? Mínir brennandi bræður?
Augun fyllast af tárum – ég fæ ei lengur séð,
hvert get ég  hlaupið, hvert get ég flogið?
Því það er jú einhver sem hefur gefið okkur lífið.
Það er jú einhver sem ákvarðaði okkur dauða.
Megi hann hjálpa mér svo að málverk mitt megi ljóma af gleði…

(Marc Chagall. Úr ljóðabókinni Engill yfir húsþökunum, Gefin út í Moskvu 1989. Íslensk þýðing: Ingibjörg Elsa Björnsdóttir)

Exodus
Exodus

Í myndinni Exodus sem gerð er á árunum 1952-1966 er ekki að sjá nein naglaför á Jesú Kristi á krossinum og geislabaugurinn lýsir upp myndina og er eins og miðja þess, þyrnikórónan farin og blóðið sést ekki. Helförinn er yfirstaðinn og það ríkir hvorki upplausn né ringulreið eins og í myndunum sem vísa til stríðsins og aðdraganda þess. Þessi krossfestingarmynd er ekki tákn dauða heldur vonar og lífs. Ferðinni er heitið til fyrirheitna landsins, Kristur rís upp úr mannfjöldanum og það er eins og hann blessi þjóð sína og þá stefnu sem hún hefur tekið, ásjóna hans lýsir yfir því og það ríkir friður. Þessi mynd sendir sterk skilaboð til áhorfenda hvort sem þeir eru gyðingar eða kristnir. Eins og kunnugt er mynda upphafsstafir leyniorða kristinna manna orðið fisk á grísku sem var lykill að samkomum þeirra þar sem þeir þurftu að fara huldu höfði. Í myndinni Kristur í klukku frá árinu 1956 bregður listamaðurinn á leik með þessi tákn og nú hefur krossfestinginn samlagast klukkunni sem er algengt tákn í myndum hans. Fiskurinn virðist eiga hlutdeild í þessu krossdrama.

Kristur í klukku
Kristur í klukku

Hasidisminn var sú stefna sem ríkti meðal gyðinga í Vitebsk, heimabæ Marc Chagalls, en hana má nefna heittrú innan gyðingdómsins. Þessi stefna einkennist af dramatískum frásögnum af leiðtogum, trúarhetjum, spámönnum, kraftaverkum og yfirnáttúrulegum fyrirbærum. Sagnahefðin er sterk og hátíðir og helgisiðir hafðir í heiðri. Chagall braut hefð gyðinga og fjölskyldu sinnar með því að leggja stund á myndlist. Sumir ættingja hans áttu erfitt með að skilja myndlistaráhugann og viðurkenndu hann ekki en það verður að teljast skiljanlegt þegar myndbann gyðinga í lögmáli Móse er haft í huga. Vegna óttans við skurðgoðadýrkun ríkir þar bann við að gera myndir og líkneski af Guði, helgum mönnum og yfirleit mönnum og dýrum, hverju nafni sem þau nefnast í lofti, á jörðu eða undir. Þetta bann stendur skýrum stöfum í Gamla testamentinu og er hluti fyrsta boðorðsins. Múslimar og kalvínskar hreyfingar innan kristindómsins hafa haldið þetta myndbann enda eru yfirleitt hvorki manna- eða dýramyndir í kirkjum þeirra, moskum og bænahúsum. Nýjar rannsóknir sýna að gyðingar fóru ekki alls staðar eftir þessu banni og þeir hafa haft ýmsar leiðir til að þróa sjónræna menningu sína, eins og kemur fram í því hvernig musteri þeirra var skreytt og samkomuhús þeirra voru útbúin. Þar koma til helgigripir og tákn og er skemmst að minnast sjálfrar sáttmálsarkarinnar sem gætt var af tveimur kerúbum eins og kveðið er á um í Annarri Mósebók (Exodus).

Helgisiðirnir og sagnirnar eru gegnsýrðar frásögnum af fólki og fyrirbærum þessa heims og annars sem mynda ríkulegan táknhheim gyðinga. Um nútíma sagnfræði og ritskýringu var ekki að ræða. Við þetta bætast svo alþýðlegar þjóðsögur og ævintýri, frásagnir af dularfullum fyrirbærum og kraftaverkum sem úir og grúir af í alþýðutrú og menningu gyðinga (Yiddish) sem Chagall ólst upp í og hafði í heiðri alla sína ævi. Í þessu sambandi má líka nefna hinn gyðinglega kabbalisma sem teygir anga sína inn í dulspeki, gnostík og gullgerðarlist.

París – suðupottur nýsköpunar fyrir fyrra stríð

Í öllu þessu lifði Chagall og hrærðist og það varð honum óþrjótandi uppspretta í myndlistarsköpun. Skortur á myndlistarhefð innan gyðingdómsins á sinn þátt í því frumlega og sérstaka myndmáli sem hann þróaði. Mystíkin og dulspekin eru líka skýring enda myndmálið þar skapandi og frjótt, náskylt draumum og goðsögnum og oft tengdara lifandi trúarlífi en niðurskrifaðir helgitextar. Þarna fann Chagall uppsprettu sköpunar sem liggur, eins og mýstíkin oft gerir, handan hins vitræna og rökræna sem bindur hefðirnar og festir táknmálið í fyrirfram gefnar skorður. Hvers konar dulspeki, guðpseki, gnóstík og alkemía var ofarlega í hugum þeirra ungu listamanna sem brutu blað í myndlist í Evrópu á fyrstu árum og áratugum 20. aldar. Skáld og listamenn frá Austur-Evrópu og Rússlandi báru með sér slíkan áhuga inn í listamannanýlendurnar í höfuðborgum Evrópu, ekki síst í París þar sem Chagall bar að garði haustið 1910, óþreyjufullur eftir því að læra og tileinka sér það nýjasta í listsköpuninni þar.

Chagall komst þar strax í kynni við áhrifamesta listgagnrýnandann í París á árunum fyrir fyrra stríð en það var ljóðskáldið og lífskúnstnerinn Guillaume Apollinaire. Hann heillaðist af hinu súrrealíska myndmáli Chagalls og kallaði það surnatúralisma, en þetta var áður en súrrealisminn kom sér upp skilgreindri stefnu. Chagall gerði einkennilegar portretmyndir af þessum nýja vini sínum og velgerðarmanni og sló í gegn með stóru (209 x 198 cm) margræðu málverki sem hann tileinkaði honum og kallaði Homage to Apollinaire. Verkið er í kúbískum stíl með hringlaga mandorlu utan um tvíkynja mannveru, Adam/Evu, sem heldur á ávexti skilningstrésins. Í þessu dularfulla verki má greina skírskotun í alkemíu (tvíkynið og ávöxtinn/viskusteininn) og kabbalisma (Adam sem hinn kosmíska frummann).

Þarna var verið að leggja grunninn að kúbismanum og Chagall kemur beint inn í þá gerjun alla og tekur þátt í þeirri tilraunastarfsemi eins og myndirnar frá þessum fyrstu Parísarárum hans bera skýran vott um. Pablo Picasso bjó þá í París og áttu leiðir þeirra eftir að liggja oft saman síðar á ævinni. Á tímabili voru þeir góðir vinir en oft var metingur á milli þeirra. Picasso hafði þegar árið 1907 brotið blað með fyrsta þekkta verkinu í kúbískum stíl, Ungfrúnum frá Avignon, þar sem hollustu við ríkjandi fagurfræði og hefðbundna þrívídd var kastað fyrir róða og fyrirbærin brotin upp og skoðuð út frá fleiri víddum og sjónarhornum. Hann vann í mörg ár náið með félaga sínum Georges Bracque og segja má að þeir hafi þróað kúbismann sem fljótt klofnaði eða fann sér ólíka farvegi í hliðarstefnur. Picasso fékk áhuga á listrænum helgigripum afrískra þjóðflokka í þessari nýsköpun sinni. Impressionisminn var einn af þeim staumum í myndlistinni sem segja má að hafi verið undanfari nýja málverksins sem varð til í París á fyrsta áratug 20. aldar. Í þessu sambandi hafði list þeirra van Goghs,  Paul Gauguin og Henri Matisse mikil áhrif.  Ein af þeim stefnum sem braut sér leið út úr þeim skóla var fauvisminn  sem vegna taumlausrar meðferðar í notkun sterkra lita og upplausn viðurkenndra forma og fyrirmynda var kenndur við villimennsku og nefndur á íslensku óargastíllinn. Kynni Chagalls af þessari stefnu skapaði honum rými til að þróa frekar sinn sérstaka stíl á forsendum óhefts ímyndunarafls og óútreiknanlegrar sköpunargleði.

Þessi tilraunastarfsemi opnaði einnig á pælingar um birtingarmyndir dulvitundarinnar sem Sigmund Freud hafði sett á dagskrá aldamótaárið með hinu mikla verki sínu um drauma og kynhvötina (libido) sem hreyfiafl sálarlífsins. Lærisveinn hans og líklegur arftaki sem leiðtogi hinnar nýju sálgreiningarstefnu, svissneski geðlæknirinn Carl Gustav Jung, þróaði hugmyndina um dulvitundina áfram og setti fram kenningu um sammannlega dulvitund þar sem forn minni og sálrænar orkustöðvar (erkitýpur) úr þróunarsögu mannkyns hafa grafið um sig og birtast í draumum og yfirskilvitlegri reynslu af ýmsu tagi. Jung leitaði í dulspeki og austræn fræði til að átta sig betur á þessum öflum og hinum nýju víddum sálarlífsins sem þessi nálgun opnaði á. Sjálfskoðun hans beindi áhuga hans að goðsögnum trúarbragða, austrænni dulspeki og helgilist svokallaðra frumstæðra þjóðflokka í Afríku og Ameríku. Jung tengdist tilraunahópi myndlistarmanna og ljóðskálda sem kenndu sig við dadaisma (óvisku) og var boðið að taka þátt í sýningu þeirra í Zurich.

Spirituality – andleg vídd óháð trúarbrögðum

Myndlistin var Chagall trúarleg köllun og hann þurfti ekki að fara í sýnagógu eða kirkju til að iðka trú sína. Stúdíóið, óháð því í hvaða landi hann bjó hverju sinni, var hans helgi- og bænastaður og Biblían uppsprettan að því ótrúlega magni myndlistar í ýmsum formum sem málverk, glerverk, leiktjöld og keramík sem frá höndum hans streymdi. Guðfræðingar eiga eftir að skoða betur framlag hans til að færa gyðinga og kristna menn nær hvor öðrum. Krossfestingarmyndir hans byggðu brú á milli þessara ólíku trúarbragða sem hafa fjandskapast í tvö þúsund ár. Myndheimur Chagalls er sjálfstætt framlag til samræðna og samskipta á milli ólíkra trúarbragða (inter-faith dialog) og um leið framlag til heimslistarinnar.

Friðarglugginn í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York
Friðarglugginn í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York

Chagall á heiðurinn að því að Jesús Kristur krossfestur er í friðarglugganum sem nú prýðir aðalstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York. Hann var beðinn um að gera þetta glerlistaverk og trúr sínum innra manni og skilningi á glerlistinni sem glugga milli heimanna þurfti ekki að biðja hann að láta ljósið skína í gegnum þann sem kallaður var friðarhöfðingi og frelsari heimsins. Andinn í verkum Chagalls ber vott um sérstaka handanlæga vídd (spirituality) sem er óháð stofnanalegum trúarbrögðum en gegnumsýrir með innblæstri alla sem á einhvern hátt tengjast trúarbrögðum sem byggja á Biblíunni. Ég fæ ekki betur séð en að myndlist Chagalls eigi sér einnig samsvörun í ýmsu í indverskri og kínverskri myndlist þar sem sjá má lík leikandi og létt form óháð jarðneskum takmörkunum sem eru bæði barnsleg og háþróuð í senn.

Árið 1973 var sérstök stofnun sett á laggirnar um verk Chagalls í Nice í Frakklandi. Chagall sem var með í ráðum á öllum undirbúningsstigum hennar vildi ekki hafa þetta hefðbundið safn heldur andlega stofnun og það mátti ekki heita Chagallsafnið heldur The National Museum for the Biblical Message. Við vígsluna sagði hann í ræðu sinni: „Ef til vill munu þeir af ungu kynslóðinni og jafnvel þeir eldri, sem þrá – eins og litirnir mínir og línurnar – bræðralag allra manna og kærleika, koma í þetta hús.“

 

Helstu heimildir:

  • Amishai-Maisels, Ziva, „Chagall´s White Crucifixion,“ Art Institute of Chicago Museum Studies“, Vol. 17,2 (1991), 138-153.
  • Plate, S. Brent, „Zakor. Modern Jewish Memory Built into Architecture.“  Religion, Art, and Visual Culture, New York: Palgrave Macmillan, 2002, 195-204.
  • Baal-Teshuva, J. (ritstj.), Chagall. A Retrospective. New York: Museum of Modern Art, 1995.
  • Walther, I. F. og Metsger R., Chagall, London: Taschen, 2006.
  • Wilson, Jonathan, Marc Chagall, New York: Schocken, 2007.
  • Wullschlager, J., Chagall. Love and Exile. London: Penguin, 2008.

Listi yfir myndir:

  • Hvíta krossfestingin, 1938 (155 x 140 cm)
  • Niðurstigningin af krossinum, 1941 (50 x 72 cm)
  • Tekinn af krossi, 1951 (33 x 28 cm)
  • Golgata, 1912 (174 x 191 cm)
  • Sjálfsmynd með klukku fyrir framan krossfestingu, 1947  (86 x 71 cm)
  • Sál borgarinnar, 1947 (60 x 85 cm)
  • Exodus, 1952-1966 (130 x163 cm)
  • Kristur í klukku, 1956 (24  x 21 cm)
  • Friður, 1964 (530 x 358 cm)

[/container]


Comments

One response to “„Ég er sonur þinn“. Um krossfestingarmyndir Chagalls”

  1. Pétur Pétursson Avatar
    Pétur Pétursson

    í lok greinar vil ég bæta við:
    Hér er það kabbalistinn Chagall sem talar, sá sem á hlutdeild í sköpun Guðs, er samverkamaður hans og vélar um formin, litina, frumefnin, andann og fyrirheitin. Um leið samsamast hann syninum þjáða og skuggi krossfestingarinnar eltir hann á röndum alveg frá því að hann ungur drengur upplifði gyðingaofsóknirnar á eigin skinni í Rússlandi keisarans.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *