Gauta Kristmannssyni svarað aftur

[container]

Um höfundinn

Einar Steingrímsson

Einar Steingrímsson er prófessor við Strathclyde-háskóla í Glasgow í Skotlandi.

Gauti Kristmannsson birti nýlega annað “svar” við pistlum mínum um íslenska háskólakerfið, og gagnrýni minni á Háskóla Íslands.  Nýjasti pistill minn um þetta er hér.

Merkilegt nokk reynir Gauti ekki að hrekja beinlínis neitt af því sem ég hef sagt, auk þess sem hann skýtur sér hjá því að svara þeirri ábendingu minni, þegar talnasamanburðurinn er annars vegar, að þrátt fyrir ónákvæmni er útilokað að útskýra þann gríðarlega mun sem er á Íslandi og öðrum löndum, og þá skiptir ekki máli hvort munurinn er tífaldur (á hlutfallslegum fjölda nemenda í rannsóknaháskólum) eða “bara” þrefaldur.  Ég ætla ekki að fara ítarlega gegnum málflutning Gauta, en nefna nokkur dæmi um rangfærslur hans.

Eitt og annað í þessari grein Gauta sé ég ekki betur en að sé kolrangt.  Meðal annars segir hann:

„Þannig er ein grein eftir t.d. fimm íslenska fræðimenn við HÍ talin fimm sinnum í þessari töflu.“

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið hjá  Vísinda- og nýsköpunarsviði HÍ eru greinar því aðeins tvítaldar á þessum lista að höfundar séu af tveim ólíkum sviðum.  Þannig sé grein aldrei tvítalin fyrir sama svið, og hafi því ekki áhrif á þann samanburð sem ég gerði.

Annað dæmi:  Gauti hefur eftir mér:

„Til að skilja molbúaháttinn sem einkennir raunverulega stefnu forystu HÍ og HR, sem báðir segjast ætla að verða öflugir rannsóknaháskólar á alþjóðavettvangi, er gott að hafa þetta í huga: Af þeim 10-12 manneskjum sem mynda æðstu akademísku stjórn þessara skóla [HÍ og HR] hefur ekki ein einasta neina teljandi reynslu af akademísku starfi við erlenda háskóla.“

Og svo segir Gauti:

„Þetta eru einfaldlega ósannindi og aðdróttun að mannorði fólks sem er hámenntað víða erlendis, hefur reynslu af starfi við erlenda háskóla og mikinn rannsóknaferil að baki.“

Einfalt hefði verið fyrir Gauta að benda á konkret dæmi um þetta, þ.e.a.s. einhverja af þessum manneskjum sem hefur “teljandi reynslu af akademísku starfi við erlenda háskóla.”  Það gerir hann ekki.  Ástæðan er einföld.  Hver sem er getur skoðað feril þessa fólks, og niðurstaðan er sú sem ég hélt fram.  (Og hér er e.t.v. rétt að taka fram að með akademísku starfi á ég ekki við það að vera í námi, heldur að hafa starfað sem akademískur starfsmaður.)

Óskandi væri að Gauti vildi ræða þessi mál í alvöru, og reyna að hrekja beinlínis það sem ég segi, í stað þess að halda bara fram að samanburðurinn sem ég geri sé ómarktækur.  Það ætti t.d. að vera auðvelt fyrir hann að útskýra hvort það er rangt hjá mér að á Íslandi séu allir akademískir starfsmenn ríkisháskólanna í rannsóknastöðum (fái umtalsverðan hluta launa sinna fyrir að stunda rannsóknir), og hvort það er algengt í öðrum löndum að það gildi um svo gríðarlega hátt hlutfall slíkra starfsmanna.  Staðreyndin, sem Gauti hefur ekki reynt að hrekjs, er að þetta er  óþekkt í nokkru öðru landi með  hlutfallslega jafn umfangsmikið háskólakerfi.  Skýringin er varla sú að Íslendingar séu ofurmenni á þessu sviði.

Óskandi væri líka að fleiri úr háskólasamfélaginu, sérstaklega það forystufólk sem ber ábyrgð á því sem gagnrýni mín beinist að, tækju þátt í þessari umræðu á  opinberum vettvangi.  Það á jú að vera aðal háskólasamfélags að stunda opinskáa og gagnrýna umræðu.

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *