Við eigum það skilið

[container] Við Íslendingar kunnum því vel þegar logið er að okkur, við teymd á asnaeyrunum og  misnotuð á allan hugsanlegan hátt. Við blátt áfram elskum að láta okra á okkur og stela af okkur, einkum ef stolið er úr því sem stundum er kallað sameign þjóðarinnar. Þessar ályktanir má draga af niðurstöðum nýlegra skoðanakannana á fylgi stjórnmálaflokkanna. Niðurstöðurnar sýna að samanlagt myndu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur fá öruggan meirihluta ef kosið væri nú. Af því að hugtakið stela er frekar ljótt og neikvætt mun ég í framhaldinu nota orðasambandið þiggja að gjöf í staðinn.

Yfirleitt ráðum við okkur ekki af fögnuði ef einhver misindismaðurinn eða fyrirtæki með vafasamt orðspor lætur í ljós áhuga á að þiggja auðlindir okkar að gjöf. Ef þiggjendurnir koma erlendis frá þykir það enn fínna og þá fara allir samstundis niður á fjóra fætur til að glefsa eftir molum sem hrjóta kunna af borðum. Fjölmargir innlendir þiggjendur hafa heldur ekki slegið hendinni á móti þegar eignir ríkisins eru í boði á silfurfati og við gleðjumst yfir því.

Viss stjórnmálaöfl í landinu hafa lagt sig í líma við að koma inn hjá sauðsvörtum  almúganum að ríkið sé skammaryrði og sjálfsagt sé að svindla á því og féfletta það hvenær sem færi gefst. Þessi stjórnmálaöfl hafa talað fyrir lágum sköttum á efnafólk og fyrirtæki, einkavæðingu grunnstoða og lögmálum markaðarins. Tónninn sem sleginn er í þeirri orðræðu er að öllu sé betur borgið í höndum einkaaðila og ríkinu sé ekki treystandi. Þessir sömu aðilar halda því fram að ekkert geti verið í þjóðareign og alls ekki auðlindir enda eru silfurfötin orðin mörg.

Ríkið, hvað er það? „Ríkið, það er ég,“ á Loðvík 14. að hafa sagt en hann var konungur Frakklands á sínum tíma og er oft kenndur við sólina. Á tíma Loðvíks var mórallinn sá að konungar voru taldir fá vald sitt frá guði og enginn amaðist við þeim gögnum og gæðum sem þessir fulltrúar almættisins þáðu að gjöf .Við hér á norðurhjara eigum okkar sólkonung líka, ítök hans eru mikil og viss hluti þjóðarinnar hefur sett hann á stall. Einkennismerki hans hafa verið krullurnar og rétt er að geta þess að hárkollan á þeim franska var einmitt krulluð og líkindin með þessum tveimur eru sterk.

Við vorum að tala um ríkið eða hið opinbera. Í auglýsingatímum útvarps í gamla daga voru ævinlega lesnar tilkynningar frá hinu opinbera. Ekki hafði ég grænan grun um hvað hið opinbera var fyrr en á fullorðinsárum. Í stuttu máli má orða það þannig að hið opinbera er ríkið og það sem ríkið á eigum við – fólkið sem byggir landið. Langflest okkar eru svo heppin að geta stundað margvísleg störf. Við greiðum hluta launa okkar í sameiginlegan sjóð, þessi hluti er oft kallaður tekjuskattur og er ákaflega óvinsæll hjá mörgum. Féð úr sjóðnum er síðan notað til að byggja upp og efla samfélagið, menntun, heilbrigðiskerfi, samgöngur og fleira. Öllum finnst sjálfsagt að hafa greiðan aðgang að slíkum lífsgæðum sem er ákveðin þversögn með tilliti til þess hvað margir eru tregir til að láta sinn skerf af hendi til þessara málaflokka.

Til er annars konar skattur sem kallast fjármagnstekjuskattur. Það er lúxusskattheimta því hann er skítur á priki miðað við tekjuskattinn. Með því að borga eingöngu fjármagnstekjuskatt leggur skattgreiðandinn eins lítið af mörkum til samfélagsins og mögulegt er. Hér á landi hefur orðið til stétt fólks sem á það sameiginlegt að hafa þegið að gjöf stóran hluta af sameign þjóðarinnar. Sumir úr stéttinni greiða fjármagnstekjuskatt en aðrir ekki neitt. Stéttin er söngelsk og hefur stofnað kór sem nefnist Grátkórinn og syngur alltaf sama lagið. Allir vorkenna fólkinu í kórnum og stéttinni í heild því hún er svo fátæk að hún getur ekki lagt neitt af mörkum til samfélagsins. Flokkarnir sem talað var um hér að ofan vorkenna stéttinni mest og reyna sífellt að greiða götu hennar. Einstakt dæmi um fátækrahjálp á Íslandi.

Niðurstöður kannana sýna að meirihluti þjóðarinnar lætur sér líka við þessa góðgerninga flokkanna tveggja enda hefur aumingjagæskan löngum leikið okkur grátt sem þjóð ef marka má Nóbelsskáldið. Ef kosningarnar fara á þennan veg þá verður hægt að segja með sanni að kjósendur muni fá nákvæmlega það sem þeir eiga skilið.

Ásdís Þórsdóttir
meistaranemi í ritlist

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *