[container]

Um höfundinn
Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir er doktorsnemi í þýðingafræðum og starfar á alþjóðasviði Árnastofnunar. Hún hefur einnig sinnt stundakennslu í Deild erlendra tungumála og í Sagnfræði- og heimspekideild við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Ingibjörg er með meistarapróf í Mennta- og menningarstjórnun og bakkalárpróf í leiklist.

Árið 1975 kom út bók í Danmörku sem hafði mikil áhrif á konur og hugmyndir þeirra um sjálfar sig. Þetta var bók um kvenlíkamann og líðan kvenna og bar heitið Kvinde kend din krop. Bókin var hispurslaus umfjöllun um nánustu líkamshluta konunnar. Bókin vakti mikið umtal og ögraði mörgum. Á þessum tæpu fjörtíu árum síðan bókin kom fyrst út hefur hún verið endurprentuð mörgum sinnum og endurútgefin minnst þrisvar. Þetta ögrandi fræðslurit kom út í íslenskri þýðingu árið 1981 undir nafninu Nýi kvennafræðarinn: handbók fyrir konur á öllum aldri.

Rit þetta var frumsýnt sem leikrit árið 2010. Höfundur verksins, Kamilla Wargo Brekling, hefur skrifað þó nokkur leikrit í heimalandi sínu og mörg hafa fengið góða dóma. Leikritið Kvennafræðarinn var frumsýnt í Danmörku og  fékk verkið frábærar undirtektir. Sýningin hlaut árð 2011 hin virtu Reumert verðlaun sem ,,stærsta” litla leiksýning ársins.

Þjóðleikhúsið frumsýndi þann 18. apríl sl. umrætt leikrit í þýðingu Málfríðar Garðarsdóttur og leikstjórn Charlotte Bøving.

Eins og gefur að skilja kann að vera erfitt að skrifa leikrit upp úr bók sem hefur ekki söguþráð, hefðbundið upphaf og endi. En Kamillu Wargo Brekling tókst vel upp við þessa leikgerð sem hún vann í náinni samvinnu við leikara.

Í verkinu er fylgst með konu, engri sérstakri konu en samt var eins og þarna væri allt sama konan, líka sú sem leikin var af karlmanni. Hvernig má þetta vera? Kannski kallar verkið eða efni þess á samkennd kvenna. Kvenhlutverkin voru leikin af Maríönnu Clöru Lúthersdóttur og karlinn var leikinn af Jóhanni G. Jóhannssyni sem þó brá sé í gervi kvenna þegar svo bar við. Þessi flókna persónuflóra er samt ekki flókin á sviðinu. Þau Maríanna og Jóhann eru örugg, einlæg og hispurlaus í flutningi sínum. Bæði búa þau yfir mikilli kímnigáfu og eiga þau góða spretti hvor um sig.

Efni verksins er auðvitað nokkuð ögrandi. Þar er talað frjálslega um kynlíf, kynfæri, sjálfsfróun, brjóstastækkanir og fleira sem hér áður fyrr hefði hrist upp í lesendum bókarinnar. Í dag er þessi umfjöllun sem betur fer sjálfsögð en öðrum þræði er það líka dálítið ógnvekjandi að svona berorðar hugsanir og lýsingar fá fólk ekki til að blikna. Umfjöllunin er á vissan hátt gamaldags en samt hefur höfundur kryddað efnið með því að bæta við tali um brasilískar vaxmeðferðir og fleira nýnæmi.

Leikmynd og búningar eru eftir Ilmi Stefánsdóttur. Ilmur er ótrúlega hugvitssamur listamaður. Leikmyndin er samansett af mörgum hvítum kúlum af mismunandi stærðum. Þetta minnir á myndir af efnatengjum, egg, litninga eða hvað sem hugurinn sér. Kúlan, hringformið, mætti ennfremur túlka sem hina eilífa hringrás lífins. Lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar beinir ljósinu á þann veg að sumar myndir á sviðinu verða undurfagrar.. Tónlist og hljóðmynd Kristins Gauta Einarssonar er skemmtileg og styður við verkið.

Leikstjóranum, Charlotte Bøving, hefur tekist að kalla fram fallega, hlýja, ljóðræna og bráðskemmtilega sýningu um bannheilagt málefni, sem er samt dálítið barn síns tíma. Og þó. Lífið og lífsklukkan er sú sama og fyrir 40 árum.

[/container]


Comments

One response to “Kvennafræðarinn”

  1. Dagný Kristjánsdóttir Avatar
    Dagný Kristjánsdóttir

    Má ég leiðrétta eitt í þessum annars ágæta leikdómi? Nýi kvennafræðarinn sem tíu manna starfshópur Rauðsokkahreyfingarinnar gaf út árið 1981 er ekki “þýðing” á dönsku bókinni Kvinde kend din krop (1975) – heldur mjög róttæk umskrifun á henni. Hún tók tvö ár! Ástæðurnar fyrir umrituninni frá dönsku bókinni eru tíundaðar í formálanum; það var munur á lagaumhverfi, heilbrigðisþjónustu, kvennapólitík og fræðslunni sem fyrir var. Ýmislegt hafði breyst frá því danska bókin kom út osfrv. Bókin hefur verið mjög mikið notuð, öll sú mikla vinna sem lögð var í hana var ólaunuð og ágóðinn gefinn til góðs málefnis.
    Dagný

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *