Amma mín fæddist árið 1907, sama ár og Katharine Hepburn. Ég fæddist 68 árum og tveimur heimsstyrjöldum síðar, já eftir Nagasaki og Hiroshima. Ég fæddist á afmælisdegi fyrrnefndrar leikkonu, sama ár og fyrsti kvennafrídagurinn var haldinn á Íslandi, sama ár og Franco dó. Áratug síðar horfðum við amma á Afríkudrottninguna (eftir John Huston frá árinu 1951) og hún benti mér á hvað afi væri merkilegur með sig á bátnum, en hann lést nokkrum árum áður en ég fæddist. Ég samsinnti ömmu og sagðist sjá afa sigla með ömmu Hepburn. Amma gleymdi nefnilega ekki afa né því að leggja kapal þó svo hún gæti ekki munað leiðina frá stofunni inn á salernið, hvað þá að afi hefði dáið. Að lokum hætti hún að leggja kapal, hætti að tala, hætti að borða, hætti að vera.

Mind the gap

Minnið er eitt af varnarvirkjum og nauðsynlegum stoðum manneskjunnar. En ég hef heyrt því fleygt að skyndilegt minnisleysi sé að smitast út í norðri, nánar tiltekið á útjaðri Evrópu, endimörkunum. Að varnarvirkið hafi verið að veikjast eins og gerðist hjá blessuninni henni ömmu minni. Minnisleysið hjá ömmu var til að byrja með háð nútíð eða öllu heldur núliðinni tíð en ágerðist smám saman og var því miður ekki eingöngu bundið við afmarkað misseri.

Mind the gap

Ágústínus kirkjufaðir líkti nútíðinni við hníf sem sker á milli tímaskeiðanna tveggja, fortíðar og framtíðar. Nútíð er því ekki tímabil í þeim skilningi. Samkvæmt þessu höfum við það sem var, bilið sem kutinn sker og það sem verður. Við erum mótuð af fortíð, framtíð og bilinu. Þetta er óaðskiljanlegur hluti af því að lifa, sama hversu mikið er stagglast á því að lifa eingöngu í núinu.

Mind the gap

Heimsslit eiga sér ekki eingöngu stað í nútíð. Þau blæða milli fortíðar og framtíðar í formi náttúruspjalla, siðleysis, græðgi, drottnunar og fjarveru. Við erum að klára heiminn. Tími eyðileggingar hefur varað lengi. Það hefði í raun ekki komið á óvart ef heimsendir hefði skollið á sem Maya-þoka 21. desember 2012. En heimurinn endar líklega ekki á einum degi heldur vegum við að lífríkinu daglega með mammónskum spjöllum okkar. Heimsslit seytla inn í veröldina. Burðarstoðir eru víða veikar.

Mind the gap

Hvað verður um heiminn í þokukenndu ástandi sem getur ekki varað? Ég lít upp hér og nú og man enn hvar ég er stödd, á endimörkum Evrópu í undarlegu fannfergi og bið eins og Ágústínus: „[…] lát mig ætíð vera viðbúinn endurkomu þinni, svo að þú finnir mig, þar sem þú vilt að mig sé að finna.“

Soffía Bjarnadóttir,
meistaranemi í ritlist


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *