Síðara bréf Péturs frá Róm

Um höfundinn
Pétur Pétursson

Pétur Pétursson

Pétur Pétursson er prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Sjá nánar

Höfundur á Péturstorgi í Róm (t.v. á mynd) með Ólafi Hauki Árnasyni.

Í fyrra bréfi ræddi ég um Rómversk-kaþólsku kirkjuna, skipulag hennar, embætti páfa og yfirstandandi páfakosningu. Hingað eru nú komnir um 5000 blaða og fréttamenn víðs vegar að úr heiminum til að fylgjast með þessu og þeir eru hér úti um allt að með sjónvarpsmyndavélar sínar og fréttaritara. Það má nærri geta að þeir hafa reynt að ná tali af kardinálunum sem nú hafa lokað að sér og tjá sig ekki meir opinberlega fyrr en heilagur andi og þeirra besta samviska hafa sameinast um þann einstakling sem næst tekur við lyklavöldum Péturs postula með því að senda hvítan reyk upp í heiðbláan himininn. Fjölmiðlaumfjöllunin getur haft viss áhrif á kosninguna því kardinálarnir eru að þreifa fyrir sér og kynnast frá sem flestum hliðum, en vei þeim sem fer beinlínis að beita sér í fjölmiðlum í til þess að agitera fyrir sjálfum sér. Það er ávísun á að hann sé kominn út í kuldann því það þola hvorki andinn né kollegarnir.

Ég ræddi einnig í fyrra bréfi um uppbyggingu og flókna samsetningu þessarar heimskirkju sem samankomin er hér í þessari sögufrægu borg og það verður ekki ofsögum sagt af því hve  samofin hún er evrópskri menningu og stjórnmálasögu vegna pólitískra ítaka sinna og  þúsaldareynslu í því að skilgreina aðstæður mannsins og þjóðfélaga gagnvart kröfum trúarinnar. Hér er staðinn vörður um varðveislu sögulegra minja,  hagsmuni kirkjunnar og möguleika erindis hennar til að ná til einstaklinga og þjóða. Þegar rómverska keisaradæmið molnaði í sundur tók kirkjan við samfélaginu með skipulagi sínu og klaustrum, stóð vörð um félagslega reglu og mótaði þjóðfélögin og menninguna. Hún varð evrópusamband síns tíma og svo sameinaðar þjóðir. Víða rann klassísk menning fornaldar um æðakerfi kirkjunnar inn í evrópska menningu og þaðan áfram í heimsmenninguna þótt útþynnt væri víða. Sá agi og einbeiting trúarinnar við ýmsar aðstæður á ólíkum tímum sem víða blómstraði innan klaustra varð sums staðar gróðurreitur nýsköpunar á ýmsum sviðum.   Í næstum tvö þúsund ár hefur glíman við valdið, náttúrulögmálin og eilífðarmálin innan þessara hreyfinga endurnýjað stirðnuð form og spilltar stofnanir og  orðið uppspretta ígrundaðra athugana og andlegrar iðju sem hefur birst í félagslegri uppbyggingu, atvinnuháttum, listum og fræðastarfi. Þess má geta að siðbreytingin hófst í þýsku Ágústínusarklaustri.

Við Íslendingar eigum margt að þakka í þessum efnum og nægir að nefna fornbókmenntirnar og sjúkrahúsin. Margt á eftir að rannsaka í þessari sögu allri og fletta ofan af fordómum og yfirborðsþekkingu á félagslegum breytingu og þróun vísinda og fræða. Það er með ólíkindum hvað margir virtir fræðimenn og fjölmiðlar láta sér lynda að fullyrða um Rómversk-kaþólsku kirkjuna og allt sem henni við kemur, margt hreinar getgátur, sögusagnir og rangfærslur. Að sjálfssögðu er hún ekki hafin yfir gangrýni og margt mætti betur fara og margt í sögunni hörmulegt, en það verður að skoða hlutina í ljósi aðstæðna og láta það sem vel er gert einnig koma fram.  Frelsunarsagan er ekki upphafið paradísarástand kyrrstöðu heldur sífelld barátta við óblíð öfl, fordóma og áföll, en stefnan er í átt til meiri þroska, réttlætis, betra samfélags og kærleiksríkri samskipta einstaklinga og þjóða í millum. Í þessum átökum þroskast hið góða og fagra og sigrar að lokum.

Háskólarnir voru upphaflega þjónustustofnanir kirkjunnar og eru það víða enn eins og kemur svo greinilega fram hér í Róm þar sem Vatikanið rekur eigin háskóla (Pontifical Universities) og sumir eru á forræði hinna ýmsu reglna sem hafa sérhæft sig og standa vörð um sínar hefðir og áherslur. Í tengslum við þessa háskóla og stjórnstöð Vatikansins eru ómetanleg bóka-, skjala- og handritasöfn. Opus Dei rekur hér nýjan og vel útbúinn háskóla Hins heilaga kross (Sancta Crux), sem státar af frábærri kennslu og rannsóknum í kirkjurétti, grein sem þessi alheimskirkja styðst við, ekki síst vegna þess að Vatikanið er sjálfstætt ríki, með eigin dómstóla, lögreglu og fjármál og þar með ítök og ábyrgð í öllum heimsálfum. Ýmsar rétttrúnaðarkirkjur á grísku og slavnesku málsvæði heyra undir páfann í Róm og þar eru siðir og skipulagt oft með ólíkum hætti en það sem tíðkast að öðru leyti og kennt er við Róm. Miðstöð fræða á þessu sviði eru í Orientaliumháskólanum rétt við gömlu Maríukirkjuna frá tíma Konstantínusar mikla. Þar er eitt besta bókasafn í heimi um austurlensk fræði, guðfræði, bókmenntir og listir. Ágústínusarreglan rekur frábæran háskóla í kirkjufeðrafræðum sem staðsettur er í nútímalegu húsnæði rétt við Péturskirkjuna. Þar er áhersla lögð á að greina rit þeirra heimspekinga og guðfræðinga sem skilgreindu trúna og kirkjuna þegar hún var að vaxa út úr og inn í hinn gríska og rómverska menningarheim og skilgreina stöðu sína og hlutverk fram á níundu öld. Jesúítareglan  rekur merkar stofnanir hér og sérstakan háskóla, Gregorianum.  Dóminíkanar standa fyrir Angelicum, háskóla sem kennir sig við heilagan Tómas Aquinas, fræðara kirkjunnar á 13.öld sem fékk viðurnefnið engillinn vegna ljúfmennsku sinnar. Þeir sem skráðir eru við einn þessara háskóla fá kort sem veitir þeim aðgang að öllum þessum háskólasöfnum.

Ég skráði mig í þennan síðasttalda skóla og hef setið þar og hlustað á fyrirlestra í fimm námskeiðum, um kirkjufeðurna, kvöldmáltíðarsakramentið, heimslitaguðfræði (Escatologíu), trú og ljóðlist og andlega leiðsögn. Áherslan á guðfræði Aquinasar birtist í efnistökunum í mörgum þessara námskeiða en guðfræði hans gengur aðallega út á samþættingu kristinnar trúar og heimspeki  Aristotelesar. Þannig lagði hann grunn að því kenningarkerfi sem kirkjan byggir að miklu leyti á enn í dag en endurskoðun í ljósi nýrrar þekkingar er einnig á dagskrá. Í þessum háskóla er mjög frjó samræða milli heimspeki og guðfræði og framlag mótmælendaguðfræðinga vegið og metið og mér sýnist yfirleitt gefin sanngjörn mynd af framlagi þeirra þótt sakramenti kaþólsku kirkjunnar séu leiðarsteinninn í trúfræði og andlegri leiðsögn.

Það er liðin tíð að kennslan við háskóla kirkjunnar fari fram á latínu. Kennslan í Angelicum fer aðalega fram á ensku og er námið þar eins og víðast hvar annars staðar hér í Róm lagað að stöðlum Bolgna kerfisins. Kúrsarnir gefa ECTS einingar sem nota má í öðrum háskólum og skólagjöldin í Angelicum eru 50€ á einingu. Víða er kennt á ítölsku sem er afar fallegt mál sem hægt er að ná tökum á með nokkurra vikna sumarnámskeiði ef maður hefur skólalatínu sem grunn eða eitthvert annað rómanskt mál. Menningar- og listasagan sem hér er varðveitt í söfnum auðgar nám og rannsóknir á þessum sviðum. Forn og nýr heimur tengjast og verða á vissan hátt  raunverulegri, margbrottnari og  áhugaverðari fyrir vikið. Sagan lifnar og vekur nýjar spurningar um samhengi hlutanna, um forsendur menningar og mannlífs. Trúarlegar og heimspekilegar pælingar um tilgang mannlífs verða áleitnar og möguleikarnir til að leita svara og prófa nýjar tilgátur opnst í fjölbreytileikanum. Mýtan um hinar myrku miðaldir stenst ekki skoðun í þessu umhverfi.

Það má því hiklaust mæla með að íslenskir háskólanemendur komi hingað í skiptinám. Það myndi auðga heimspeki- sagnfræði og guðfræðimenntunina heima ef kennarar og nemendur myndu í auknum mæli tengjast háskólastofnunum hér. Íslensk menning og samfélag á miðöldum átti sér stjórnstöð hér í Róm og andlegir straumar héðan mótuðu menningu og andlegt líf í Evrópu og Ísland var þar engin undantekning. Það er full ástæða til að huga að skiptinámi og rannsóknatengslum við miðaldafræði og guðfræðideildina á Íslandi og styðja stúdenta í að sækja hér nám bæði á grunnstigum og framhaldsstigi. Má þar helst nefna kirkjufeðrafræði, kirkjurétt, guðfræðisögu, trúariðkun (spirituality) og sögu klaustra og menningarstarfsemi þeim tengdum.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *