Rithöfhundur – voff, voff

Rithöfundarferill Hallgríms Helgasonar og rithöfhundurinn sem í honum býr voru til umfjöllunar í erindi sem Hallgrímur flutti á Skáldatali ritlistar við Háskóla Íslands í liðinni viku.

Hallgrímur vildi lengi vel ekkert með rithöfhundinn hafa að hans sögn. Hann vildi ekki verða sagnaskáld á Íslandi þar sem þögnin ríkti þegar hann var ungur maður: ,,Ljóðskáldin ortu bara um þögnina. Þögla dali, þögul hraun og þögnina sem speglast í þöglu vatni. Þetta voru þögul skáld að vegsama gildi þagnarinnar. Hún væri öllu æðra, jafnvel skáldskapnum sjálfum. Já, hversu hlálegt var það ekki að rjúfa þögnina með ljóði.“

Hallgrímur píndi sig þó til að skrifa sína fyrstu skáldsögu og í Skáldatali sagði hann frá því hvernig söguefni hennar og persónur urðu til. Og frá myndmálinu sem enginn skildi, t.d. Heklugosinu sem hann fann ekki fyrir þoku, ekki fyrr en hann horfði út um gluggann á rútu síðla nætur og sá rauðgulan blett á gráum fleti, ógnarlítið vitni um stóran atburð. Þessa eftirminnilegu mynd notaði Hallgrímur síðar til að tákna ástina í Hellu.

Rithöfhundurinn fór víða í erindi sínu og sagði m.a. frá fyrsta ljóðinu, óttanum við atómsprengjuna, fyrsta höfundarverkinu, sem týndist, Stóra glerinu eftir Marcel Duchamp, þegar hann var Muggur á Manhattan, skotárásinni, Lólítu og pílagrímsferðunum til Globe.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *