Útvarpsþættir um líf og störf Ingmar Bergman

Ingmar Bergman er einn áhrifamesti kvikmyndaleikstjóri tuttugustu aldarinnar en á ferlinum gerði hann á sjötta tug bíómynda og starfaði samhliða því alla tíð í leikhúsi. Haukur Ingvarsson fjallaði nýverið um ævi og störf Bergmans í Glætu á Rás 1.

Björn Ægir Norðfjörð, lektor í kvikmyndafræði og Pétur Pétursson, prófessor í guðfræði, báðir fræðimenn á Hugvísindasviði Háskóla Íslands, eru meðal viðmælenda í þáttunum.

Pétur er höfundur bókarinnar Kónguló eða kærleiksguð: Um áhrif kristindómsins á Ingmar Bergman og listsköpun hans. Í bókinni er fjallað um trúarleg stef í nokkrum af þekktustu kvikmyndum Bergmans. Í kynningu bókarinnar segir: ,,Í kvikmyndinni Sjöunda innsiglið frá árinu 1957 og í öðrum kvikmyndum næstu fimmtán ár þar á eftir glímir Bergman á persónulegan hátt við spurningar um náð Guðs, tilgang lífsins, dauðann og mannlega þjáningu. Þögn Guðs og neikvæð áhrif hennar á samskipti fólks setur svip sinn á margar myndir hans. Rekja má þessi viðfangsefni og úrvinnslu þeirra í myndum Bergmans til barnæsku hans og uppeldis í Stokkhólmi, en faðir hans var þar prestur. Bergman hefur við mörg tækifæri látið í ljós biturleika sinn út í foreldra sína sem greinilega hefur sett mark sitt á guðsmynd hans og gagnrýni á kristna trú.“

Hér er hægt að hlusta á útvarpsþætti Hauks Ingvarssonar um Ingmar Bergman:

Glæta 31. mars 2012. Í þættinum er sjónum beint að því hvernig stef í höfundarverki Bergman birtast í Fanny og Alexender og hvernig sagan sem sögð er í myndinni skarast við ævi Bergmans sjálfs. Lesari í þættinum er Hjalti Rögnvaldsson en hann les úr sjálfsævisögu Bergmans Töfralampanum sem kom út árið 1987.

Glæta 7. Apríl 2012. Í þættinum eru tvær myndir Bergmans frá árinu 1957 í brennidepli en þær eru Sjöunda innsiglið og Sælureiturinn en einnig koma myndirnar Persóna og Svipmyndir úr hjónabandi við sögu.



Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *