Hinar snjóhengjurnar

Um höfundinn
Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson er prófessor í þýðingafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknasvið hans eru almenn þýðingafræði, enskar og þýskar bókmenntir, upplýsingin í Evrópu, þýðingasaga, málstefna á Íslandi og annars staðar og íslenskar samtímabókmenntir. Sjá nánar

Umræðan um íslensku krónuna og óttinn við hana fer um víðan völl og ekki vantar uppástungurnar um lausnir sem vitanlega er þegar mótmælt af andstæðingum því pólitísk rökræða virðist orðin ógjörningur hér á landi. Á það kannski rætur að rekja til hins pólitíska stíls sem Davíð Oddsson kom í mikla tísku á sínum tíma, en hann felst í því að vera á móti öllum tillögum „hinna“ óháð því hversu góðar hann sjálfur teldi þær vera. Það virðist vera stíllinn sem er ráðandi á hinu háa Alþingi nú um stundir.

Ein helsta ástæða krónuvandans hefur verið talin hin svokallaða „snjóhengja“ íslenskra króna upp á þúsund milljarða í eigu erlendra fjárfesta sem vitaskuld hlytu að flýja sem fætur toga úr landi við afnám gjaldeyrishafta áður en krónan hryndi enn frekar.

En það eru fleiri snjóhengjur hér á landi en þessar. Ein felst í innlendum sparnaði í óverðtryggðu krónunni (sem er önnur mynt en sú verðtryggða). Næsta víst má telja að íslenskir eigendur íslenskra óverðtryggðra króna færu þráðbeint úr landi með sínar eignir í kjölfar hinna erlendu (ef ekki á undan þeim), enda væru þeir vanvitar ef þeir gerðu það ekki. Það myndu sennilega bankar og lífeyrissjóðir gera líka að einhverju leyti og græða þannig tvöfalt á hruni krónunnar og myndu eignir þeirra í verðtryggðum krónum snarhækka um leið og skuldir heimila og fyrirtækja með lán í verðtryggðu krónunni færu endanlega upp úr þaki. Sú staðreynd að íslenskir krónueigendur leggi líka á flótta hefur ekki verið rædd, en halda menn virkilega að þeir láti peningana sína brenna upp af kurteisi við þjóðina?

Verðtryggða krónan er síðan þriðja risahengjan yfir íslensku samfélagi og samanlagðar eru þessar þrjár „snjóhengjur“ mesta ógn við lífskjör þeirra sem á Íslandi búa og starfa. Að kalla eftir hraðri „aðlögun“ með afnámi haft og „taka skellinn“ er ekki aðeins vanhugsað heldur nálgast það brjálæði að standa undir slíkum hengjum og öskra í von um að þær fari. Draumurinn um að einhver önnur ríki taki að sér losa um þær með varfærnum hætti án nokkurra skuldbindinga af Íslands hálfu (les: einhliða upptaka erlends gjaldmiðils) er í besta falli hæpinn og í versta falli martröð því hvar eru peningarnir til að kaupa þá þjónustu? Svokallaður gjaldeyrisvaraforði Íslendinga er að miklu leyti lánsfé og ekki bíða lánveitendur í röðum til að tvöfalda erlendar skuldir ríkisins.

Skattlagning á fjármagnsflutninga úr landi virðist einnig vera hættuspil; sé skattprósentan lág fara menn hvort sem er, sé hún of há bíða menn það af sér eins og núna. Hvort til sé einhver millivegur er erfitt að segja, en skattlagning af þessu tagi er vitanlega aðeins annað form gjaldeyrishafta og til þess að koma í veg fyrir leka yrðu Íslendingar að greiða slíkan skatt líka. Aðrar lausnir virðast sama marki brenndar, en þegar öllu er á botninn hvolft er traust útlendinga sem Íslendinga á íslenskum gjaldmiðli í einhverri mynd í þvílíku lágmarki að það fyrsta sem allir lausafjáreigendur myndu gera væri að skipta hinni íslensku mynt (nema kannski verðtryggðu krónunni) yfir í erlenda. Það vill enginn eiga neitt í fljótandi gjaldmiðli sem millistjórnandi hjá meðalstórum fjárfestingasjóði getur fellt að vild fyrir kaffi á mánudagsmorgni.

Eina hugsanlega leiðin út úr öngstrætinu virðist vera að gera samkomulag við ESB  og Evrópska seðlabankann sem hefur tæki og tól til að verjast snjóhengjunum svokölluðu þótt vissulega sé ekki komið í ljós hvort þessir aðilar vilji hjálpa. Og sú hjálp verður heldur ekkert ókeypis. En í stað þess að fá úr því skorið hvort á því sé að græða fyrir íslenska þjóð kjósa margir að standa undir snjóhengjunum og orga. Afleiðingarnar munu því miður ekki hitta þá eina fyrir.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *