Tvöhundruð ára afmæli Charles Dickens

Tvöhundruð ár afmæli Charles Dickens er minnst víða um heim í dag, en rithöfundurinn fæddist í Portsea, sem er nú hluti af borginni Portsmouth á suðurströnd Englands, þann 7. febrúar 1812.

Fjölmiðlar taka höfundinn og verk hans til umfjöllunar, allt þetta ár eru sérstakar ráðstefnur haldnar um Dickens eða þá að málstofur eru helgaðar honum á ársþingum fræðafélaga og háskóla í fjölmörgum löndum. Þannig verður til dæmis sérstök málstofa um Dickens á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands 9. og 10. mars næstkomandi; meðal gesta og fyrirlesara þar verður prófessor Michael Hollington, sem hefur skrifað mikið um Dickens. Haldin verða fjögur erindi þar sem fjallað verður um sögulegt vægi Dickens, alþjóðlega og á Íslandi, um þær tvær sögulegu skáldsögur sem eftir hann liggja, og um leikræna túlkun, í sögu kvikmyndanna, á einni þekktustu persónu sem höfundurinn skapaði.

Ríkisútvarpið minnist afmælisins með tveimur þáttum sem Ástráður Eysteinsson, forseti Hugvísindasviðs og prófessor í almennri bókmenntafræði, hefur umsjón með. Í þáttunum er reynt að skyggnast í þann arf sem frá Dickens er kominn og er sérstaklega spurt hver hlutur hans hefur verið í íslenskum bókmenntaheimi.  Fyrri þátturinn var á dagskrá Rásar 1 síðastliðinn sunnudag og sá síðari verður fluttur sunnudaginn 12. febrúar kl. 10:15. Þá má geta þess að Egill Helgason ræddi við Ingibjörgu Ágústsdóttur, lektor í ensku, um Charles Dickens í Kiljunni í liðinni viku.

Vefur um tvöhundruð ára afmæli Charles Dickens.

 


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *