Ritdómur: Upp á yfirborðið. Nýjar rannsóknir í íslenskri fornleifafræði

Um höfundinn

Kristján Mímisson

Kristján Mímisson er doktorsnemi í fornleifafræði. Sjá nánar

Upp á yfirborðið. Nýjar rannsóknir í íslenskri fornleifafræði. Ritstj. Orri Vésteinsson, Gavin Lucas, Kristborg Þórsdóttir og Ragnheiður Gló Gylfadóttir. Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík, 2011. Mynd fengin af heimasíðu Fornleifastofnunar Íslands.

Það er ávallt mikið fagnaðarefni þegar út koma rit um íslenska fornleifafræði enda á þessi atburður sér frekar sjaldan stað. Á undanförnum árum hefur þó verkum sem fjalla um fornleifarannsóknir á Íslandi fjölgað nokkuð og skemmst er að minnast veglegrar útgáfu á fornleifarannsóknunum á Hofstöðum í Mývatnssveit sem opnuðu nýja ritröð Fornleifastofnunar Íslands. Nú er það aftur þetta ágæta fyrirtæki, Fornleifastofnun Íslands, sem stendur fyrir útgáfu nýs verks um íslenskar fornleifarannsóknir. Það hefur hlotið afar lýsandi titil fyrir eðli fræðagreinarinnar, Upp á yfirborðið. Nýjar rannsóknir í íslenskri fornleifafræði. Verk þetta er reyndar allt annars eðlis en hið mikla sérrit um Hofstaðarannsóknina sem var ítarleg fullnaðarbirting eins ákveðins rannsóknarverkefnis. Þessi bók er eins konar sýnisbók á starfi Fornleifastofnunar Íslands undanfarin 16 ár. Ég þykist vita að bókin hafi í raun átt að koma út í tilefni af 15 ára afmæli stofnunarinnar árið 2010 en hafi svo seinkað lítillega. Það breytir auðvitað engu um gildi bókarinnar – og hver er svo sem kominn til með að segja að 16 ára afmæli sé eitthvað veigaminna tilefni til bókaútgáfu en hvert annað afmæli.

Bókin samanstendur af sjö stærri köflum og fjölmörgum styttri innrömmuðum smátextum sem taka til að mynda á einstökum aðferðafræðilegum möguleikum fornleifafræðinnar, gera grein fyrir niðurstöðum ákveðinna rannsóknarverkefna eða fjalla um samfélagslegt mikilvægi fornleifafræðinnar. Höfundar efnisins eru alls 21, ýmist núverandi eða fyrrverandi starfsmenn Fornleifastofnunar Íslands, eða þá fræðimenn sem tekið hafa virkan þátt í rannsóknum á vegum fyrirtækisins. Meginkaflarnir taka á mismunandi fornleifafræðilegum viðfangsefnum sem dekka svo til öll tímabil Íslandssögunnar, allt frá landnámi til 20. aldar, nema reyndar sá fyrsti sem fjallar um sögu fyrirstækisins. Þar er hún sett í áhugavert samband við þróun mála í fornleifavernd hér á Íslandi auk þess sem dregin er upp samanburður á ástandi mála í Bretlandi og Danmörku.

Í heildina séð er stíllinn á textunum léttur og almennur þannig að hann höfði til breiðs hóps lesenda. Með útgáfunni hefur augljóslega hvorki verið lögð áhersla á mjög ítarlega heimildarvinnu né djúpa fræðilega umræðu, heldur léttan og upplýsingaríkan texta fyrir allan almenning. Þá er bókin líka afar vel skreytt miklum fjölda litmynda. Skýringartextar við myndefni eru ítarlegir í greinunum sjálfum en heilsíðumyndir í upphafi hvers kafla eru því miður skildar eftir án skýringa. Ein ljósmyndin í bókinni hefur þó vakið meira umtal en aðrar.[1] Þetta er ljósmynd af haugfé úr Vatnsdalskumlinu í Patreksfirði. Klaufaleg tölvuvinnsla á myndinni hefur valdið því að tveir kambar líta út fyrir að vera músétnir. Auðvitað er hér bara um handvöm að ræða sem auðvelt hefði verið að fyrirbyggja. Að öðru leyti er allt útlit bókarinnar og umbrot vel úr garði gert.

Af innihaldi meginkaflanna er það að segja að Guðrún Alda Gísladóttir og Mjöll Snæsdóttir fjalla um tímabundinn innflutning á bökunarhellum frá Noregi á miðöldum og benda á að ekki megi tengja hann saman við breyttar matarvenjur Íslendinga heldur þurfi að líta á bökunarhellur sem eins konar tímabundið tískufyrirbrigði.

Orri Vésteinsson, Sigríður Þorgeirsdóttir og Howell Roberts skrifa um verslun á Íslandi allt frá landnámi og fram á 18. öld og koma fram með nokkuð nýstárlegar hugmyndir um eðli utanlandsverslunar á miðöldum og þær breytingar sem urðu á 17. öld með einokunarversluninni. Höfundar byggja umfjöllun sína á yfirgripsmiklum rannsóknum sem gerðar voru á miðaldaverslunarstaðnum Gásum í Eyjafirði og undirstrika röksemdafærslu sína með tölfræðiyfirliti um fjölda innfluttra gripa í gripasöfnum ýmissa uppgrafinna býla frá mismunandi tímum. Þau færa fyrir því rök að verslun á miðöldum hafi í raun verið einokuð af íslenskri yfirstétt en orðið opnari og á vissan hátt markaðsvæddari á tímum einokunarinnar.

Oscar Aldred ritar grein sem sker sig nokkuð úr þar sem hann fjallar um kennilega orðræðu innan fornleifafræðinnar og varpar ljósi á hana út frá sínu kjörviðfangsefni, landsháttafornleifafræði. Höfundur vísar í fyrirbærafræðilega fornleifafræði Christophers Tilley og bendir á að hægt sé að upplifa og skynja fortíðina í landslaginu. Með því að rýna í okkar eigið líf og læra að skilja hvernig það „samanstendur af sífelldum samtenginum efnislegra og óefnislegra þátta” þá getum við færst skrefi nær fortíðinni, segir Oscar.

Birna Lárusdóttir og Elín Ósk Hreiðarsdóttir skrifa kafla sem fjallar í grunninn um gildi fornleifaskráningar ekki aðeins sem undanfara fornleifauppgraftar eða skipulags- og framkvæmdavinnu, heldur líka sem sjálfstæðrar fornleifafræðilegrar rannsóknaraðferðar. Þannig getur fornleifaskráning byggt á sínum eigin rannsóknarspurningum, t.d. hvers vegna lagðist byggð af í blómlegum sveitum? Höfundar fjalla um þetta í ljósi rannsóknarskráningar í Þegjandadal og Reykjahreppi í Suður-Þingeyjarsýslu. Meginþungi greinarinnar liggur reyndar í umfjöllun um nokkuð merkilegt og víðfemt kerfi garða sem hafa fengið viðurnefnið Kínamúrar Íslands. Höfundar lýsa fornleifum svæðisins ágætlega en svara að lokum ekki rannsóknarspurningunni sem gengið var út frá.

Lokakafli bókarinnar er eftir Gavin Lucas og fjallar hann þar um fornleifafræði nýliðinna tíma. Hann – reyndar líkt og Oscar Aldred – leggur mikla áherslu á að fornleifafræðin sé fyrst og fremst fræði og vísindi efnismenningar, óháð tíma. Út frá eigin rannsóknum í Kúvíkum í Strandasýslu lýsir höfundur gildi þess að rannsaka efnismenningu hins nýliðna með aðferðum fornleifafræðinnar. Fornleifauppgröftur á öskuhaug í Kúvíkum varpaði þannig á margan hátt nýju ljósi á lífið í þessu kauptúni á síðari hluta 19. aldar og á öndverðri 20. öld. Gripirnir í haugnum sögðu sögur af heimilslífi íbúanna en settu samfélagið líka í áhugavert samband við hnattvæðingu og kapítalisma.

Í heild er bókin Upp á yfirborðið ágætis verk og gott innlegg í fornleifafræðilega umræðu þótt hún risti ekki fræðilega djúpt, enda hefur tæplega verið gengið út frá því markmiði í upphafi. Textarnir eru að langmestu leyti á læsilegri íslensku og stíllinn þjáll. Í lok hvers kafla er ítarlegur útdráttur á ensku. Þó ber að hafa í huga að um þriðjungur textans er íslenskaður og hefur Orri Vésteinsson haft veg og vanda með þýðingunni. Auðvitað verður að fagna því að Fornleifastofnun Íslands skuli hafa ákveðið að birta þessa bók á íslensku því fram til þessa hefur stærstur hluti af birtingum fyrirtækisins verið á ensku. Í dag er þó fátt eins nauðsynlegt fornleifafræði á Íslandi og lærð umræða á móðurmálinu. Þýðingar Orra eru yfirleytt nokkuð góðar þó að ég hafi hnotið um einstaka staði í textanum. Hér og hvar finnst mér að íslensk máltilfinning hefði mátt vera betri og stundum fer tilgerðin aðeins fram úr hófi. Dæmi um hið fyrra má nefna titil kaflans Fornleifar í fersku ljósi[2], en notkun á forna íslenska heiti Lýbíku á Hansaborginni Lübeck mætti draga fram sem dæmi um hið síðarnefnda. Þá má segja að hvoru tveggja eigi við um þýðingu Orra (hér með aðstoð Ugga Ævarssonar) á enska faghugtakinu cursus. Þetta þýðir þeir sem paðreimur sem merkir hringleikahús en mætti líka útlista sem skeiðbraut. Vissulega geta þýðingar á fræðihugtökum oft verið flóknar, sérstaklega þegar um sértæk hugtök er að ræða. Slíkar hugtakaþýðingar þurfa þó falla vel að tungunni, vísa á einn eða annan hátt í frumhugtakið, bæði innihaldslega og helst hljóðfræðilega, ef hægt er. Þar fyrir utan er best ef þau eru auðskiljanleg. Að mínu mati á ekkert af þessu við um orðið paðreimur. Braut, vegur, leið eða traðir eru allt orð sem hefðu virkað betur.

Vissulega ráða athugasemdir mínar varðandi þýðingu einstakra hugtaka ekki úrslitum um gildi bókarinnar og í raun eru þessar aðfinnslur bara tittlingaskítur. Verra þykir mér óþarfa ónákvæmni, villuleiðingar eða stórkarlalegar fullyrðingar sem maður hnýtur um á einstaka stað. Þannig finnst mér Birna Lárusdóttir og Elín Ósk Hreiðarsdóttir hefðu sannarlega mátt vinna nákvæmari heimildavinnu fyrir sína grein (sama gildir um sérstakt innskot Elínar sem nefnist „Kínamúrar Íslands”) og minnast á aðrar fornleifarannsóknir á görðum sem farið hafa fram á Íslandi.[3] Þetta hefði hugsanlega getað varpað skýrara ljósi á garðalögin í Suður-Þingeyjarsýslu og aðstoðað höfunda við að svara rannsóknarspurningunni sem lögð er fram í upphafi greinarinnar. Það sama mætti segja um grein Gavins Lucas um rannsóknirnar í Kúvíkum. Hér fullyrðir hann að sú rannsókn hafi verið sú fyrsta sem „fæst gagngert við nútímaminjar”. Með orðinu ‘gagngert’ slær Lucas auðvitað ákveðna varnagla og í framhaldinu bendir hann á að vissulega komi nútímaminjar oft í ljós við uppgröft en með þær sé lítið gert. Betur hefði farið að setja rannsóknina í Kúvíkum í samhengi við það sem áður hefur verið gert[4], og sumt meira að segja vel, í stað þess að fella allar fyrri rannsóknir á minjum hins nýliðna undir sama hatt áhuga- og sinnuleysis. Í kaflanum Fornleifar í fersku ljósi eftir Gavin Lucas og Howell Roberts er fjallað um strauma og stefnur í rannsóknum á býlum (sérstaklega skálum) frá landnámstíma. Þar gagnrýna þeir réttilega eldri rannsóknir sem einskorðuðu sig við skálabygginguna en skildu aðrar byggingar bæjarstæðisins eftir afskiptar. Höfundar telja svo upp þær rannsóknir þar sem bæjarstæðin í heild sinni hafa verið skipulega könnuð en láist algjörlega að minnast á nýlegar rannsóknir í Hólmi í Nesjum. Þar hafa sjálfsagt hvað flest mannvirki fundist á einu bæjarstæði frá landnámstíma (hugsanlega ásamt Sveigakoti) auk þess sem ytra athafnasvæðið hefur verið ítarlega rannsakað. Svipaða sögu má segja þegar litið er á gagnasafnið sem Orri, Sigríður og Howell leggja til grundvallar tölfræðigreiningu sinni á innfluttum gripum í gripasöfnum ýmissa býla frá mismundandi tímabilum Íslandssögunnar. Þar er ekki tekið tillit til ýmissa yngra rannsókna á býlum sem aðrir en Fornleifastofnun Íslands hafa stjórnað[5]. Ég vil ekki fullyrða að þetta hafi afgerandi áhrif á niðurstöðu tölfræðigreiningarinnar þó að í raun verði að draga þá ályktun út frá umfjöllun höfundanna sjálfra. Það verður að segjast að þessi meðhöndlun á rannsóknum annarra liggi eins og rauður þráður í gegnum alla bókina sem miðlar því þeirri einkennilegu sýn að frá árinu 1990 hafi svo til enginn stundað fornleifarannsóknir á Íslandi utan Fornleifastofnunar Íslands. Hinn almenni lesandi mun ekki láta þetta trufla sig en þeir sem þekkja betur til innan fornleifafræði á Íslandi hljóta að klóra sér í kollinum yfir þessum vinnubrögðum. Ekki bætir úr skák einstrengingsleg umfjöllun Gavins Lucas og Howells Roberts um uppgraftaraðferðir eða kokhraustar fullyrðingar í inngangsgrein Adolfs Friðrikssonar og Gavins Lucas um rekstur og útfærslu fyrirtækisins.

Vissulega geta stjórnendur og starfsfólk Fornleifastofnunar Íslands verið stolt af fjölmörgu. Fyrirtækið hefur sannarlega áorkað miklu á síðastliðnum 16 árum og verið gríðarlega mikilvægur þátttakandi í framþróun fornleifafræði á Íslandi. Það er sérhverjum hollt að hrósa sjálfum sér á tímamótum og benda öðrum á eigin vel unnu verk. Slíkt sjálfshól þarf þó – eins og allt annað – að vera ákveðnu í hófi og á ekki vera sett fram á kostnað annarra. Nákvæmni í heimildavinnu, virðing fyrir rannsóknum annarra og hófsemi í fullyrðingum er að mínu mati grundvöllur allrar fræðilegrar vinnu og ég er fullviss um að í komandi sýnisbókum um starf Fornleifastofnunar Íslands – og megi þær verða sem flestar – verði betur hugað að þessum atriðum. Og viti menn, þá mun Fornleifastofnun Íslands verða hlaðin lofi fyrir verk sín – ekki bara sínu eigin, heldur líka allra annarra.


[1] http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1199655/
[2] Á íslensku er vant að sjá eða sýna hlutina í nýju eða skýrara ljósi.
[3] Ágætt yfirlit um rannsóknir á garðlögum er að finna í grein Bjarna F. Einarssonar, „Garður er granna sættir” sem birtist í Árnesingi, VII, 2006, bls. 205-230
[4] Tvö dæmi um slíkar rannsóknir eru Hjarðarbólsoddi í Eyrarsveit og Fífilbrekka við Þjórsá.
[5] Hólmur í Nesjum (víkingaöld), Bær í Öræfum (miðaldir) eða Búðarárbakki (17. öld) eru bara þrjú dæmi sem standa mér næst. Sjálfsagt mætti telja fleiri rannsóknir til.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *