Frankfurtarpunktar II: Jón Gnarr í leikhúsi menningar

Um höfundinn
Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson er prófessor í þýðingafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknasvið hans eru almenn þýðingafræði, enskar og þýskar bókmenntir, upplýsingin í Evrópu, þýðingasaga, málstefna á Íslandi og annars staðar og íslenskar samtímabókmenntir. Sjá nánar

Ekki snerist allt beint um bækur á bókastefnunni í Frankfurt. Borgarstjórinn í Reykjavík, Jón Gnarr, kom þangað að vísu til að skrifa formlega undir samning þar sem Reykjavík verður skjólborg ritöfundar á flótta, hið svokallaða ICORN-verkefni, en fyrst Jón var þarna þá greip ein helsta stjarna þýskra spjallþátta, Richard David Precht, tækifærið og fékk hann á spjallfund í leikhúsinu Mousonturm í Frankfurt. Precht er sennilega vinsælasti höfundur heimspekibókar fyrir almenning í Þýskalandi eins og er, en bók hans Wer bin ich – und wenn ja, wie viele? eða Hver er ég – og ef já, hversu margir? sat heilt ár metsölulistatímaritsins Der Spiegel og mun hafa selst í yfir milljón eintökum.

Precht vildi tala við Jón Gnarr vegna kenningar sinnar um að fulltrúalýðræðið sé orðið nánast úrelt og að framboð eins og Besti flokkurinn og Sjóræningjaflokkurinn í Berlín, sem nýlega náði öllum að óvörum um 9% fylgi í borgarstjórnarkosningunum þar í borg, að slíkir flokkar séu í raun brautryðjendur nýrra tíma í stjórnmálum þar sem beint lýðræði af ýmsum toga sé næsta eðlilega skref í lýðræðisþróuninni í heiminum. Þetta sé óumflýjanlegt vegna breyttra aðstæðna og þankagangs.

Það er kannski ekki oft sem leikhúsið líkir eftir sjónvarpinu, en í stað þess að sitja beinlínis í pallborði fyrir framan fullt hús af áhorfendum var formið frekar eins og á klassískum spjallþætti með umræðustjórnanda og þátttakendum. Jón fékk góða kynningu frá Annette Brüggemann og voru brot sýnd úr vídeóblogginu hans og einnig kosningaauglýsingin fræga þar sem hann lofaði fíkniefnalausu Alþingi 2020 og sjálfbæru gegnsæi.

Umræðurnar fóru síðan fram á þýsku og íslensku og útlistaði Precht kenningar sínar sem voru kannski ekki eins róttækar og ætla mátti; í raun taldi hann að mikinn fjölda ákvarðana um nærumhverfi fólks mætti flytja niður á sveitastjórnarstigið og afgreiða með beinu lýðræði um leið og hann viðurkenndi að stjórn ríkja og ríkjasambanda yrði áfram í höndum stjórnmálamanna. Stór hluti verkefna þeirra og valda yrði hins vegar fluttur frá ráðuneytum og ríki til smærri eininga. Jón kvaðst vera á þessari leið með borgina og kynnti vefinn Betri Reykjavík í því sambandi. Hann nefndi líka að hann sæi sig ekki sem leiðtogann eina og sanna sem öllu bjargaði, heldur væri hlutverk hans að færa fólkinu ábyrgðina á sjálfu sér til baka. Og ef menn væru argir og segðust ekki vilja kjósa hann aftur sagðist hann svara því með því að spyrja „hvað gerirðu þá ef ég býð mig ekki fram aftur?“ og uppskar lófatak.

Maria Weisband og Jón Gnarr.

Leynigestur kvöldsins var síðan Marina Weisband frá Sjóræningjaflokknum sem bættist við hópinn og hefði kannski mátt hafa meira að segja, en hún undirstrikaði einkum nýtingu nýrrar tækni eins og Twitter við afgreiðslu pólitískra mála. Það er gott og blessað, en kannski er hún og félagar hennar frekar dæmi um „áhugamenn“ þá sem Precht taldi að fólkið vildi fá í staðinn fyrir atvinnustjórnmálamenn sem í margra augum hefðu brugðist hlutverki sínu.

Það er kannski í þessu sem tækifæri nýrra hreyfinga í stjórnmálum liggur; í örvæntingu kjósenda yfir klíkuskap, spillingu og vanhæfni gamalla stjórnmálaflokka sem menn ganga ekki lengur í af hugsjón heldur til að komast á jötuna og tryggja sér tengsl. Að vera í fylkingarbrjósti nýrra pólitískra hreyfinga er því ekkert grín þótt vissulega geti menn haft gaman af því.

Upptöku af spjallinu má finna undir slóðinni: http://audiofarm.org/audiofiles/17205#


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *