Konfúsíus kemur og fer: um endurvakningu konfúsíanisma í Kína samtímans

Um höfundinn
Geir Sigurðsson

Geir Sigurðsson

Geir Sigurðsson er dósent og deildarforseti Deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda. Hann hefur fengist við margvísleg ritstörf á sviði heimspeki, bókmennta, samfélags­ og menningarmála. Sjá nánar

Styttan af Konfúsíusi sem hvarf í Beijing. Myndin var algeng á kínverskum vefsíðum eftir að styttan var fjarlægð og hefur henni augsýnilega verið breytt til gamans. Á styttuna hefur verið áletrað táknið “chai” sem merkir “rífa niður”. Þetta er tákn sem sést afar víða í kínverskum borgum þar sem eldri byggingar eru merktar til niðurrifs.

Í kínverskri þjóðfélagsumræðu samtímans ber verulega á stóraukinni umræðu um konfúsíanisma og framtíðarhlutverk hans í kínversku samfélagi. Konfúsíanískum gildum er hampað jafnt í stjórnmálaumræðu sem á sviði menntamála og ýmis grasrótarsamtök leitast við að efla ítök hans í hversdagslegu lífi almennings. Fyrir þau okkar sem stundað hafa rannsóknir er tengjast konfúsíanisma um nokkurt skeið er hér um að ræða algerlega nýjar kringumstæður. Fyrir um 15 árum eða svo voru það einna helst nokkuð sérvitrir kínafræðingar sem sýndu honum áhuga. Þeir beindu þá sjónum að honum annað hvort sem áhugaverðum heimspekiskóla með annars konar nálgun á siðferði en þeim sem ráða ríkjum innan vestrænnar heimspeki eða sem fornri hugmyndafræði sem vissulega var grundvöllur glæstrar sögu kínversku keisaraveldanna en hafði jafnframt stuðlað að því að hinsta keisaraveldið, Qing-veldið, ríghélt í afturhaldssama stjórnar- og samfélagsstefnu sem leiddi til falls þess árið 1911. Allt frá hinni svonefndu Fjórðu maí byltingu 1919 þegar nánast allar stéttir kínversku þjóðarinnar kröfðust nútímavæðingar og gerðu konfúsíanisma að helsta sökudólgi fyrir þeirri erfiðu stöðu sem hrjáði Kína jafnt innanlands sem á alþjóðavettvangi hefur honum verið hafnað og hann jafnvel ofsóttur. Vandlætingin náði líklega hámarki á árunum 1973-4 þegar Konfúsíus var opinberlega rægður af kommúnistastjórn menningarbyltingarinnar undir forystu Mao Zedong og settur – með harla torkennilegum hætti – undir sama hatt og Lin Biao sem talinn er hafa ætlað að ráða Mao af dögum og taka sjálfur við stjórnartaumunum en lést að öllum líkindum í flugslysi yfir Mongólíu er hann reyndi að flýja til Sovétríkjanna eftir að ráðabrugg hans mistókst. Skipulagðar fjöldagöngur gegn hinum „afturhaldssömu“ og „kapítalísku“ félögum Lin Biao og Konfúsíusi voru tíðar á þessum árum. Sagt var að „kínversk saga sýndi að þegar hin afturhaldssama stétt væri við völd höfðaði hún til Konfúsíusar til að halda vörð um völd sín og blekkja alþýðuna; og þegar hún væri ekki við völd notaðist hún einnig við konfúsíaníska hugsun í því skyni að endurheimta völd sín á grundvelli blekkinga.“[1]

En nú er öldin önnur. Í kjölfar opnunarstefnu Deng Xiaoping á níunda áratugnum tók fljótlega að bera á talsvert öðrum, opnari og jákvæðari viðhorfum gagnvart hinum aldna meistara. Fyrstu teiknin í þá veruna mátti lesa út úr stofnun Konfúsíusarsjóðs Kína (中国孔子基金会 Zhongguo Kongzi jijinhui) árið 1984 í heimabæ Konfúsíusar, Qufu, að frumkvæði hins virta menntamanns Liang Shuming. En það er einkum á nýrri öld sem veruleg gróska hefur átt sér stað. Víða um land hafa verið stofnaðir einkaskólar sem sérhæfa sig í konfúsískum siðum og lífsspeki og jafnvel hafa hinar sígildu ritningar verið gerðar að skyldulesefni í kínverskum grunn- og menntaskólum.[2] Við ýmsa helstu háskóla landsins hefur rannsóknarstofnunum á sviði konfúsískrar heimspeki verið komið á legg.[3] Frá 2005 hafa kínversk menntayfirvöld stuðlað að því að koma á fót yfir 350 Konfúsíusarstofnunum við háskóla um allan heim, m.a. við Háskóla Íslands, en stofnanir þessar eru menningarstofnanir sem styðja baki við kínverskukennslu og fræðslu um kínverska menningu og samfélagsmál. Þótt þessum stofnunum sé ekki ætlað að breiða út einhvers konar konfúsíanískt „fagnaðarerindi“ er það þó til marks um breytt viðhorf gagnvart Konfúsíusi að þeim sé ljáð nafn hans. Á opnunarhátíð Ólympíuleikanna í Beijing 2008 lék Konfúsíus og hugsun hans ótvírætt aðalhlutverk. Og í núverandi stjórnartíð sinni hafa Hu Jintao forseti og Wen Jiabao forsætisráðherra vísað í talsverðum mæli til gilda og hugmynda sem rekja má til konfúsíanisma, t.d. með hugtökunum „samstilltu samfélagi“ (和谐社会 hexie shehui) og „fjölskyldutryggð“ (孝 xiao). Þótt umdeilt sé hvernig túlka beri þessar tilvísanir hafa ýmsir mætir spekingar leitt að því líkur að stjórnvöld, eða að minnsta kosti nokkur hluti þeirra, sjái fyrir sér að sem einhvers konar sérkínversk menningararfleifð gæti konfúsíanismi fyllt upp í hugmyndafræðilegt tómið sem marx- og maoisminn hefur skilið eftir í huga þjóðarinnar.[4]

Í janúar á þessu ári virtist jafnvel sem stuðningur stjórnvalda við konfúsíanisma hefði verið orðinn opinber þegar 10 metra há bronsstytta af meistaranum var reist á Torgi hins himneska friðar. Í apríl, hins vegar, hvarf hún aftur í skjóli nætur og án útskýringa. Svo virðist sem hinn margbrotni Kínverski kommúnistaflokkur sé enn ekki reiðubúinn til að mæta arfleifð þjóðarinnar og að andstaðan við þennan táknræna viðburð hafi reynst vera of mikil meðal æðri stjórnenda flokksins. En hvað sem líður styttum sem koma og fara leikur enginn vafi á því að konfúsíanismi er um þessar mundir að upplifa mikla en ekki síður margbrotna endurvakningu. Við þeim okkar sem leggja stund á rannsóknir á konfúsíanisma blasa því ný og flóknari verkefni um ókomin ár: að skýra hinar fjölmörgu ásýndir þessarar endurvakningar á hinum ýmsu sviðum kínversks samfélags.


[1] Workers, Peasants and Soldiers Criticize Lin Piao and Confucius. Beijing: Foreign Languages Press, 1974. Sótt 10. október 2011 af http://www2.kenyon.edu/Depts/Religion/Fac/Adler/Reln471/Criticize.htm

[2] Sjá Joy Lam, „China‘s Revival of Confucianism“, University of Southern California US-China Institute (2008). Sótt 6. júlí 2011 af http://china.usc.edu/ShowArticle.aspx?articleID=1179.

[3] Þar má m.a. nefna Beijing háskóla, Renmin háskóla í Beijing og Kínverska háskólann í Hong Kong.

[4] Sjá t.d. Daniel A. Bell, „China‘s Leaders Rediscover Confucianism“, International Herald Tribune, 14. september 2006.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *