Um höfundinn
Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson er prófessor í þýðingafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknasvið hans eru almenn þýðingafræði, enskar og þýskar bókmenntir, upplýsingin í Evrópu, þýðingasaga, málstefna á Íslandi og annars staðar og íslenskar samtímabókmenntir. Sjá nánar

Frankfurt Waldstadion. 40 þúsund manns eru saman komin á knattspyrnuvellinum í Frankfurt 2. júní 1993. Írska stórsveitin U2 er með tónleika og það er löngu uppselt. Fyrir ofan risavaxið sviðið rísa skjáturnar stærri en nokkru sinni hafa sést á rokktónleikum og birta þeir í sífellu nýja og nýja kveðju á öllum tungum Evrópu; meira að segja íslenskan er á sínum stað. Stemningin er samt einhvern veginn dofin. Ástæðan er sú þremur dögum áður höfðu nýnasistar varpað mólótovkokkteilum að íbúðarhúsi tyrkneskra innflytjenda og endurtekið það sem nokkrum mánuðum áður hafði gerst í borginni Mölln þar sem þrjár manneskjur létu lífið. Í Solingen voru það fimm konur sem týndu lífi. Margir slösuðust illa.

Þessi árás var svo nýskeð að hún lá yfir fjöldasamkomunni eins kæfandi teppi. Pönkhljómsveitin Die Toten Hosen hitaði upp fyrir kappana írsku og byrjaði á gargandi lagi með þéttum takti en stuðið lét á sér standa. Eftir lagið þagði söngvarinn augnablik og gat svo ekki orða bundist, fordæmdi árásina og hvatti viðstadda til að rífa alla nasistasnepla hvar sem þeir yrðu á vegi þeirra. Eitthvað létti yfir mannskapnum þegar þetta var sagt, það varð að segja eitthvað um þessa atburði, þungi sögunnar hvíldi á áheyrendum sem þó voru fæstir fæddir fyrir 1945.

Eftir upphitunina kom svo aðalnúmerið, U2, á sviðið í gervi risavaxinna brúða sem voru eftirmyndir hljómsveitarmeðlimanna sjálfra. Dvergvaxinn búkur, miðað við risastórann Bonohausinn, gekk fram sviðstunguna sem náði langt fram í áheyrendaskarann. Hann hélt á írska fánanum, grænum, hvítum og appelsínugulum. Kominn fremst á sviðið tók hann til við að rífa fánann í tætlur, hann tætti þjóðfána síns eigin ríkis og manni kom í hug hversu snjallt það var; hann reif ekki nasistafána, sem er jú ólöglegur í Þýskalandi, og heldur ekki þýska fánann, heldur sinn eigin þjóðfána, kannski ekki leyfilegt samkvæmt írskum lögum, en hann var heldur ekki að ráðast á írskt þjóðerni og Íra heldur þjóðernishyggju og rasisma almennt. Þannig skildi ég og líkast til flestir aðrir þennan gjörning stjörnunnar og það létti yfir hópnum, við sem þarna vorum töldumst vitanlega ekki til þessara nasistaóféta og Þjóðverjarnir fengu líka að sjá að þessi þankagangur er ekki þeirra einkamál.

Nú gátu tónleikarnir hafist og smám saman náði stuðið algleymingi; þeir kunna til verka Írarnir þessir og mannfjöldinn hoppaði, dansaði, söng og öskraði af hrifningu, ég líka, verð að viðurkenna það. En það datt yfir mig í einu laginu. Undir lokin spiluðu þeir í U2 eitt frægasta lag sem þeir hafa gefið út: Sunday, Bloody Sunday. Og allir tóku undir. En að vissu leyti var fáninn þar með saumaður saman aftur.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *