Gulrætur

Stöðluð hugvísindi

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

Um langt skeið hefur vinnumats- eða hvatakerfi verið við lýði við Háskóla Íslands. Öll störf háskólakennara en einkum rannsóknir eru metin og umreiknuð í stig eða punkta. Stundum hefur stigatalning þótt bera eiginlegt gæðamat ofurliði. Grunnhugmyndin er þó sú að raunverulegt akademískt mat eigi að vega salt við staðlaða stigagjöf.

Ugglaust hefur hvatakerfið eflt rannsóknir við Háskólann. Með því hafa þær verið metnar til fjár til hagsbóta bæði fyrir deildir og einstaka starfsmenn. Ekki má þó yfirdrífa áhrif kerfisins. Það er aðeins eitt af mörgum tækjum sem beitt hefur verið til að breyta Háskóla Íslands úr embættismannaskóla í rannsóknarháskóla. Nú er grunnnám á háskólastigi ekki helsta hlutverk Háskólans. Vaxtarbroddurinn felst í framhalds- eða rannsóknarnámi.

Það eru þó aðrir þættir sem líklega vega þyngra en hvatakerfið. Til dæmis hafa greinileg kynslóðaskipti orðið meðal háskólakennara. Auðvitað var marga framúrskarandi vísindamenn að finna meðal þeirrar kynslóðar sem hóf störf við Háskólann um miðbik síðustu aldar. Margir þeirra höfðu hins vegar ekki hlotið sérstaka menntun eða þjálfun til rannsókna. Þeir skildu hlutverk sitt við Háskólann líka fyrst og fremst svo að þeim bæri að byggja upp trausta grunnmenntun í sinni grein. Sú kynslóð sem tók við á síðari áratugum aldarinnar var hins vegar almennt með rannsóknarnám að baki. Nú eru rannsóknir líklega fremur lífsform flestra kennara við Háskóla Íslands en að þeir líti á þær sem skyldu sína í starfi. — Skyldi þetta breytast ef hvatakerfið væri fellt brott? Hvort ræður ferðinni ástríðan eða „gulrótin“?

Þessi breyting hefur haft veruleg áhrif á félagslegt hlutverk og stöðu háskólakennara. Auðvitað er það svo að margir kennarar við Háskóla Íslands hafa fjölþætt áhrif við mótun íslensks samfélags eða taka a.m.k. virkan þátt í samfélagsumræðunni. Nú er samt litið á háskólafólk sem sérfræðinga sem vissulega beri að tjá sig um málefni er tengjast sérgrein þess en ætti að halda sig við sinn leist að öðru leyti. Fyrir einni kynslóð voru fjölmargir háskólakennarar hins vegar í lykilhlutverkum í samfélaginu sem oft voru fjarri faggrein þeirra. Sérhæfing í samfélaginu hefur aukist og háskólakennarar einangrast.

Þessi þróun og einkum hvatakerfið hafa staðlað rannsóknir við Háskóla Íslands og þær aðferðir sem viðhafðar eru til að birta þær. Þetta á ekki síst við um rannsóknir í hugvísindum. Þá má líka segja að hugvísindarannsóknir hafi verið staðlaðar eftir viðmiðum sem sótt eru til annarra fræðasviða, félagsvísinda og jafnvel raunvísinda.

Fyrir nokkrum áratugum var bókin eða mónógrafína viðtekið form til að birta rannsóknarniðurstöður í hugvísindum. Það þótti kostur ef þær voru birtar þannig að breiður lesendahópur gæti kynnt sér þær, sem og að framsetningin væri lipur og ljós, jafnvel með bókmenntalegu yfirbragði. Á þennan hátt var almenn menntun efld og lagður grunnur að því að mögulegt væri að hugsa um hin aðskiljanlegustu mál á íslensku. Nú er birting af þessu tagi litin hornauga. Niðurstöður á að birta í sérhæfðum tímaritsgreinum og helst á alþjóðlegum vettvangi.

Við hugvísindafólk höfum glöð og prúð tekið þátt í þessari stöðlun. Nú skipuleggjum við til dæmis almennt málþing okkar og ráðstefnur þannig að við fjöllum um viðfangsefni okkar í 20 mín. fyrirlestrum, tökum þátt í 10 mín umræðum um þau og birtum síðan afraksturinn í 8000 til 10. 000 orða greinum.

Einu sinni var sagt um mína fræðigrein, guðfræðina, að hún fælist í því að hugsa langar hugsanir. Auðvitað segir frasi á borð við þennan ekkert. Við biðjum um skýrari skilgreiningar nú á dögum. Hins vegar felst nokkuð í honum: Það tekur oft lengri tíma en 20 mín. og fleiri orð en 10. 000 að koma á framfæri nýjum túlkunum í hugvísindum. — Stefnum við hraðbyri inn í hættulega stöðlun sem heftir frekar en eflir nýsköpun í fræðigreinum okkar?

Mynd eftir Simon Howden


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *