Kjöt

Vitundarvakning um velferð: Dýraát, Derrida og verksmiðjubú

Meirihluti fólks borðar dýr og dýraafurðir. Meirihluti fólks borðar dýr og dýraafurðir án þess að hugleiða við hvaða kringumstæður og með hvaða hætti búið er að dýrunum sem síðar rata á disk þess. Meirihluti fólks á Íslandi borðar dýr og dýraafurðir í þeirri trú að aðstæður og aðferðir hérlendis séu skárri og ,,mannúðlegri” en tíðkist annars staðar.

Síðastliðin ár hefur átt sér stað ákveðin vitundarvakning á Vesturlöndum um fyrirbærið kjötát. Menn hafa í auknum mæli velt fyrir sér eðli, gildi og þróun kjötáts í okkar vestræna samfélagi, og beint sjónum að aðbúnaði og meðferð dýra í landbúnaði. Þetta hefur gerst í kjölfar þess að framleiðsla á kjöti hefur þróast í átt að svokallaðri verksmiðjuframleiðslu, þar sem dýr eru hlutgerð eins og hver önnur framleiðsluvara, ræktuð og alin við nöturleg skilyrði og að lokum drepin með missársaukalausum aðferðum.

Hin aukna meðvitund um fyrirbærið hefur í för með sér að fleiri neytendur taka tillit til siðferðis, velferðar, heilsufars, umhverfisáhrifa og réttlátra viðskipta- og framleiðsluhátta, í stað þess að hugsa aðeins um bragð, vöruverð og framboð. Þetta hefur leitt til aukinnar eftirspurnar eftir lífrænni búvöru.

Franski heimspekingurinn Jacques Derrida sagði í fyrirlestri árið 1997 að nú væri brýnna en nokkru sinni að leiða hugann að sambandi manna og dýra, þar sem dýraát væri orðið að iðnaði þar sem dýr væru fjöldaframleidd, á þeim framkvæmdar erfða- og hormónabreytingar, þau látin þola linnulausa tæknifrjóvgun og innræktun, og þannig smættuð niður í starfrænt hlutverk sitt gagnvart manninum [1].

Framleiðsla foie gras hefur löngum verið umdeild. Af vinotek.is: ,,Hún er framleidd úr lifur sérstaklega aldra gæsa sem fæðunni hefur bókstaflega verið troðið ofan í til að lifrin verði einstaklega stór og feit."
Framleiðsla foie gras hefur löngum verið umdeild. Af vinotek.is: ,,Hún er framleidd úr lifur sérstaklega aldra gæsa sem fæðunni hefur bókstaflega verið troðið ofan í til að lifrin verði einstaklega stór og feit."

Á síðustu árum hefur orðið sprenging í útgáfu bóka um málefni dýra, velferð þeirra og neyslu á þeim. Sem dæmi má nefna bækurnar The Omnivore’s Dilemma (2006) eftir Michael Pollan, metsölubókina Eating Animals eftir Jonathan Safran Foer (2009) sem þýdd hefur verið á fjöldamörg tungumál, Some We Love, Some We Hate, Some We Eat: Why It’s So Hard to Think Straight About Animals, eftir Hal Herzog (2010), From Factory Farms to Food Safety : Thinking Twice About the Meat We Eat eftir Moby (2010). Jafnvel í Frakklandi, landi foie-gras, froskalappa og filet mignon, hefur verið mikil gróska í bókaútgáfu um efnið, og má þar nefna bækurnar Confessions d’une mangeuse de viande eftir Marcela Iacub (2011), Bidoche : L’industrie de la viande menace le monde eftir Fabrice Nicolino (2010), Dictionnaire horrifié de la souffrance animale eftir Alexandrine Civard-Racinais (2010) og Arrêtons d’être carnivores ! eftir Claude Servanton (2010).

Vangaveltur um siðferði þess að drepa dýr sér til matar hafa verið áberandi síðan fyrstu dýraréttinda- og -verndunarfélög voru stofnuð á 19. öld. Hins vegar er áhugavert að skoða hina miklu aukningu sem orðið hefur á útgáfu bóka um efnið á síðustu áratugum. Samkvæmt uppflettiriti Charles Magel [2] um bækur sem varða málefni dýra voru 94 verk útgefin frá elstu heimildum fornra heimspekinga og fram til ársins 1970. Á árunum 1970-1988 bættust 240 verk við og heimspekingurinn Peter Singer telur líklegt að nú megi telja þau í þúsundum [3]. Grósku í titlum um efnið á síðustu árum og áratugum má því rekja til aukinnar vitundarvakningar um verksmiðjubúskap, sem eins og fyrr sagði hefur breiðst út með ógnarhraða síðan um miðja síðustu öld.

Verksmiðjubúskap hefur verið líkt við fjöldamorð og útrýmingarbúðir, og í hvert sinn hefur sú myndlíking vakið heiftarleg viðbrögð. Derrida segir í fyrrnefndum fyrirlestri að slíka myndlíkingu skuli ekki ofnota, en að auki segir hann að ekki skuli heldur nema staðar við hana og álíta hana útskýra málið til hlítar [4]. Verksmiðjubúskapur útrýmir ekki aðeins fjölda skepna á hrottalegan hátt, heldur ræktar fleiri og fleiri skepnur gagngert til þess að útrýma. Verksmiðjubúskapur er þannig endalaus framleiðsla á útrýmingu. Sú huglæga eða hlutlæga mynd af aðstæðum dýra í slíkum búskap, segir Derrida, vekur oft paþos, eða samúð. Manneskja þarf ekki að vera dýraverndunarsinni eða grænmetisæta til að þykja það hræðilegt hvernig fer fyrir dýrunum. En flestir þeir sem fyllast samúð hugleiða sjaldnast hvað raunveruleg samúð eða samkennd er og hvaða afleiðingar slík tilfinning hafi í för með sér [5].
Velbú eru frjáls félagasamtök um bætta velferð og lífsskilyrði búfjár á Íslandi.
Velbú eru frjáls félagasamtök um bætta velferð og lífsskilyrði búfjár á Íslandi.

Lítið hefur farið fyrir hugleiðingum um dýravernd og velferð dýra hér á landi, fyrr en nýverið, með stofnun félagasamtakanna Velbú. Samtökin hafa kannað aðstæður í íslenskum landbúnaði og um það hafa birst fjölmargar fréttir, sem margar hverjar hafa svipt Íslendinga tálsýninni um hinn heimilislega iðnað sem þeir héldu að hér væri stundaður. Nýverið hélt Norræna húsið málþing um aðbúnað og velferð dýra í íslenskum landbúnaði. Þar var ýmsum spurningum velt upp, meðal annars hvers vegna umræðan væri orðin svona hávær að undanförnu og hvort virkilega væri farið illa með dýr hér á landi. Í kynningarefni málþingsins var meðal annars spurt hvort það væri „óhjákvæmilegur fylgifiskur nútíma framleiðsluhátta að dýr al[i]st upp við slæman aðbúnað?” [6]

Því ber að fagna að umræðan hér á landi sé að verða meira áberandi, en málþingið var fjölsótt og færri komust að en vildu. Þar var samankominn fjölbreyttur hópur fólks: dýraréttindasinnar, lífrænir neytendur, kjúklinga- og eggjabændur, hefðbundnir bændur, dýralæknar og almennir neytendur. Mikill samhugur var í fólki og ljóst er að sumir viðstaddra höfðu beðið í mörg ár eftir þessari umræðu. Þetta var tímamótafundur sem mun eflaust koma til með að hafa gríðarleg áhrif á þróun dýraréttinda á Íslandi.

Að lokum ber að fagna því að nýtt frumvarp um dýravelferð verður lagt fram á Alþingi í haust. Óskandi er að með tilkomu frumvarps, málþings, þrýstihópa og aukinni umræðu um dýraát, aðbúnað og velferð dýra hefjist róttækt endurmat á sambandi manna og dýra og hugmyndum okkar um samúð. Raunveruleg samúð er ekki að setja upp skeifu, andvarpa, vorkenna eða harma en láta þar við sitja. Neytendur senda skýr skilaboð með því að velja eða hafna vöru, og slík skilaboð geta raunverulega skilað árangri. Þess vegna þurfa allir að leiða hugann að þessum málum, ávarpa þau og taka afleiðingunum sem fylgja því að sýna raunverulega samúð.

Yrsa Þöll Gylfadóttir
doktorsnemi í bókmenntafræði


[1] Derrida, Jacques: The Animal That Therefore I Am, þýð. úr frönsku eftir David Willis, New York: Fordham University Press, 2008, bls.25-29.

[2] Magel, Charles R. : Keyguide to information sources in animal rights, London: Mansell Pub., 1989.

[3] Singer, Peter: In Defense of Animals: The Second Wave, Blackwell, 2006, bls.2.

[4] Derrida, Jacques: The Animal That Therefore I Am, þýð. úr frönsku eftir David Willis, New York: Fordham University Press, 2008, bls.26.

[5] Ibid, 2008, bls.26.

[6] http://www.nordice.is/norraena-husid/frettir/nr/881


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *