Orustuþota á flugmóðurskipi

Byrði hvíta mannsins og stríðsþátttaka Íslands I

Um höfundinn
Sverrir Jakobsson

Sverrir Jakobsson

Sverrir Jakobsson er prófessor í miðaldasögu við Háskóla Íslands. Hann hefur ritað bækurnar Við og veröldin. Heimsmynd Íslendinga 1100-1400 (2005), Saga Breiðfirðinga I. Fólk og rými frá landnámi til plágunnar miklu (2015) og Auðnaróðal. Baráttan um Ísland 1096-1281 (væntanleg 2016). Sjá nánar

Sunnudaginn 27. mars 2011 samþykkti Atlantshafsbandalagið að taka við yfirstjórn hernaðaraðgerða í Líbýu. Með þessari samþykkt er Ísland enn á ný orðið aðili að styrjaldarátökum og hefðu fæstir getað spáð því fyrir um síðastliðin áramót. Orsakanna fyrir þessari þróun er að leita víða, ekki einungis í Líbýu, og gæti verið gagnlegt að rifja upp helstu vörður á þeirri leið.  Frumforsenda þess að borgarastyrjöld braust út í Líbýu er almenn uppreisn í Arabaheiminum sem hófst skömmu eftir áramót. Í umfjöllun fjölmiðla er oftast nær fjallað um þessi lönd sem þjóðríki að evrópskri fyrirmynd. Sú nálgun segir þó ekki alla söguna. Lönd Norður-Afríku og Austurlanda nær hafa iðulega tilheyrt sömu ríkisheild og eiga þar afleiðandi sameiginlega sögu. Þau voru hluti af Rómarveldi, síðan tilheyrðu þau ríki kalífanna og að lokum réðu Ósmanar þar ríkjum í margar aldir.
Þjóðríki Arabaheimsins urðu til á fyrri hluta 20. aldar þegar stórveldi Evrópu tóku að skipta á milli sín leifum Ósmanaríkisins. Bretar sölsuðu undir sig Egyptaland, Írak og Jórdaníu; Frakkar Sýrland og Líbanon en Ítalir lögðu undir sig Líbýu. Yfirráð Ítala hófust fyrir réttum 100 árum, árið 1911, þegar Ítalir hertóku héruðin Tripolitaniu, Fezzan og Cyrenaicu. Þeir beittu m.a. lofthernaði og mun það vera fyrsta dæmið um slíkt í mannkynssögunni. Árið 1934 sameinuðu Ítalir svo héruðin undir hinu forna rómverska heiti Líbýa. Landstjóri nýlendunnar var flugkappinn Italo Balbo, þá tiltölulega nýkominn frá opinberri heimsókn á Íslandi. Er stundum litið á hann sem föður Líbýu.
Að undanförnu hefur alda mótmæla skekið nánast allan Arabaheiminn, sem fellur að mestu leyti saman við gamla Ósmanaríkið. Einungis harðsvíruðustu einræðisstjórnir, í Sádi-Arabíu og Marokkó, hafa náð að kæfa mótmælin í fæðingu. Upphaf mótmælanna var í Túnis þar sem einvaldi landsins, Ben Ali, var steypt í lok janúar. Næstur til að hrökklast frá völdum var einvaldur Egyptalands, Hosni Mubarak. Þessar stjórnarbyltingar voru afleiðing blóðugra mótmæla, en brotthvarf einvaldanna kom í veg fyrir harðari átök. Í þremur öðrum löndum, Jemen, Bahrain og Líbýu var mótmælendum hins vegar svarað með hörku. Hið sama er uppi á teningnum í Sýrlandi þar sem mótmælin hófust síðar, en þeirra hefur orðið vart víðar, t.d. í Alsír og Írak.
Eitt af einkennum mótmælahreyfingarinnar í Arabaheiminum var að hún var sjálfsprottin og beindist ekki síst að þjóðarleiðtogum sem hafa verið dyggir bandamenn Vesturlanda. Það var því ekki óvænt að þau myndu reyna að grípa inn í þróunina og reyna að snúa henni sér í hag. Það gerðist þó ekki í Bahrain þar sem her Sádi-Arabíu réðst inn í landið og gerði uppreisnina þar með að milliríkjamáli. Grundvallarviðmið Vesturlanda virðist vera það sama og áður, að ekki megi styggja Sádí-Arabíu. Í Jemen vörðust stjórnvöld af mikilli hörku og fljótlega kom upp klofningur meðal fyrrverandi ráðamanna þar sem hluti þeirra gekk í lið uppreisnarmanna. En í Jemen er bandarísk flotastöð og greinilegt er að bandarísk stjórnvöld leggja allt kapp á að viðhalda stöðugleika í landinu, jafnvel þó að það hafi í för með sér áframhaldandi stjórn einvaldsins Abdullah Saleh, sem hefur verið þar við völd í 33 ár.
Í Líbýu leiddust mótmælin hins vegar út í borgarastyrjöld þar sem uppreisnarmenn náðu yfirráðum yfir borginni Benghazi í Cyrenaicu. Augljóst er að fylgi þeirra er mest þar, í austurhluta landsins. Þar hefur styrkur islamista einnig verið mestur og Ghaddafi einvaldur Líbýu var fljótur að lýsa uppreisnina verk al-qaeda og gerði sér vonir um skilning af hálfu Vesturlanda. Hann var hins vegar þegar í stað harðlega gagnrýndur af nokkrum vestrænum ráðamönnum, m.a. Sarkozy Frakklandsforseta, Hague utanríkisráðherra Bretlands og Hilary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Sömu aðilar höfðu þó áður hvatt uppreisnarmenn í Túnis og Egyptalandi til að sýna stillingu og utanríkisráðherra Frakka hafði meira að segja boðið einvaldinum Ben Ali aðstoð Frakka við að bæla niður uppreisnina. En nú átti s.s. að reka af sér slyðruorðið.

Muammar al-Gaddafi
Muammar al-Gaddafi, leiðtogi Líbýu Mynd: tekin af Jesse B. Awalt

Í byrjun mars hóf stjórnarher Líbýu sókn gegn uppreisnarmönnum sem höfðu þá á valdi sínu flestar stærri borgir landsins. Þeir voru fljótlega hraktir þaðan nema í Cyrenaicu þar sem þeir héldu fótfestu. Ljóst er að hér skipti ættbálkaskipulag Líbýu miklu máli. Stærsti ættbálkur landsins, Warhalla, hafði upphaflega hallast á sveif með uppreisnarmönnum en ýmsir forystumenn hans lýstu nú yfir stuðningi við Ghaddafi. Þá þegar voru breskir leyniþjónustumenn komnir til Líbýu þar sem þeir voru handteknir af uppreisnarmönnum – tala bresk yfirvöld um „misskilning“ í því efni. Hinn 10. mars, eftir að stjórnarherinn hafði hertekið borgina Zawiyah, helsta vígi uppreisnarmanna í vesturhluta landsins, lýsti Frakklandsforseti því yfir að hann viðurkenndi stjórn uppreisnarmanna sem löglega stjórn landsins. Bandaríkjastjórn var þá hikandi, enda er ekki hægt að segja að hernám Bandaríkjanna á Afganistan og Írak hafi skilað þeim árangri sem að var stefnt. Meðal bandarískra ráðamanna eru því margir sem eru staðráðnir í því að skuldbinda ekki Bandaríkin til enn eins hernaðarævintýris af þessu tagi og hefur Robert Gates varnarmálaráðherra verið helsti talsmaður þessa hóps.

Mótmælendur
Mynd: tekin af Worldbulletin

Hinn 12. mars fundaði Arababandalagið og lýsti yfir stuðningi við flugbann yfir Líbýu. Var þar komið tilefnið sem Frakkar og Bretar höfðu verið að leita að. Fundinn sóttu aðeins 11 af 22 aðildarríkjum bandalagsins og tvö þeirra, Alsír og Sýrland, voru raunar andvíg tillögunni. Um órofa samstöðu Arabaheimsins var því ekki að ræða. En þessi stuðningur var eflaust meginforsenda þess að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun um flugbannið. Fimm ríki studdu þó ekki tillöguna (Þýskaland, Kína, Indland, Rússland og Brasilía), m.a. á þeim forsendum að hana mætti nota sem átyllu til hernaðaríhlutunar. Tvö ríki sem greiddu tillögunni atkvæði sitt (Suður-Afríka og Líbanon) hafa síðar lýst því yfir að þau hafi ekki litið svo á að með því væru þau að styðja loftárásir.

Hinn 19. mars hófust svo loftárásir á Líbýu og tóku Frakkland og Bandaríkin strax forystuna í þeim hernaði. Þegar kom í ljós að þær aðgerðir nutu ekki stuðnings alþjóðasamfélagsins. Til viðbótar við þau ríki sem áður eru nefnd fordæmdu mörg Afríkuríki árásirnar og Afríkubandalagið hvatti til vopnahlés. Kemur þar ýmislegt til. Í fyrsta lagi hefur Líbýustjórn gert margt til að efla bandalagið og styðja við bakið á því fjárhagslega. Í öðru lagi hafði reiði uppreisnarmanna ekki síst beinst gegn svo kölluðum „málaliðum“ Ghaddafis en þeir koma einkum frá Afríkulöndum. T.d. var ráðist gegn Afríkumönnum í Benghazi og margir þeirra drepnir, undir því yfirskyni að þeir væru málaliðar. Í þriðja lagi hefur Afríkubandalagið unnið að tillögum til að sætta stríðandi fylkingar í Líbýu og gekkst fyrir ráðstefnu í því skyni. Eftir að loftárásirnar hófust mættu uppreisnarmenn hins vegar ekki að samningaborðinu. Kannski kom þó mest á óvart að framkvæmdastjóri Arababandalagsins dró í land með stuðning sinn við árásirnar og þrjú af fjórum Arabaríkjum sem höfðu lofað hernaðaraðstoð (konungsríkin Sádi-Arabía, Marokkó og Jórdanía) hafa enn ekki staðið við það loforð.

Þeir ráðamenn á Vesturlöndum sem höfðu verið talsmenn loftárása sýndu strax með ummælum sínum að ætlunin væri að útvíkka upphaflegt markmið loftárásanna og steypa stjórninni í Tripoli af stóli. Hér á því að endurtaka leikinn frá Afghanistan og Írak. Um þetta hefur þó ekki náðst almenn samstaða og einkum hafa hershöfðingjarnir sem leiða árásirnar verið tregir til að lýsa yfir þessu markmiði. Ljóst er að engin samþykkt Sameinuðu þjóðanna né nokkur bókstafur í alþjóðalögum myndi geta réttlætt slíkt markmið.

Loftárásirnar á Líbýu höfðu vernd almennra borgara að yfirvarpi. Reynslan sýnir hins vegar að lofthernaður eykur líkurnar á mannfalli meðal almennra borgara, auk þess sem að ekkert stríð hefur ennþá unnist á lofthernaði einum saman. Markmiðið fyrir því að beina hernaðaraðgerðum í þennan farveg virðist því að koma í veg fyrir mannfall af hálfu vestrænna hermanna en ekki almennings í Líbýu. Þegar í fyrstu vikunni sýndu skoðanakannanir að aðgerðirnar nutu lítils stuðnings almennings á Vesturlöndum. Meirihluti aðspurðra í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi og Rússlandi kvaðst andvígur þeim, en í Frakklandi er hins vegar stuðningur við þær. Enn hafa hernaðaraðilar útilokað landhernað en hafa nú opnað á vopnasölu til uppreisnarmanna. Ekki er nokkur leið að sjá að það myndi samræmast samþykkt öryggisráðsins um að stuðla að vernd almennra borgara.

Eftir að loftárásirnar hafa staðið yfir í 14 daga hefur lítið breyst. Í upphafi sóttu uppreisnarmenn til vesturs og nutu þar loftverndar Vesturveldanna sem tóku þar með beina afstöðu með þeim í borgarastyrjöldinni. Þeir hafa hins vegar verið hraktir tilbaka aftur og ekkert útlit fyrir að þeir geti unnið hernaðarsigur án frekari aðstoðar. Átökin eru ekki í öllum tilvikum á milli stjórnarhersins og uppreisnarmanna; dæmi eru um að óbreyttir borgarar hafi gripið til vopna til að verja sig gegn báðum þessum hópum. Hugsanleg niðurstaða gæti því orðið skipting Líbýu í fleiri en eitt ríki. Mannfall í átökunum hefur verið verulegt en þó eru allar tölur á reiki. Áberandi er viðleitni vestrænna fjölmiðla til að hunsa allar fréttir um mannfall óbreyttra borgara í Líbýu.

Seinni grein Sverris Jakobssonar um átökin í Líbýu


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *