Jimmy McNulty og „Bunk“ Moreland
Lögreglumennirnir Jimmy McNulty og „Bunk“ Moreland á vettvangi

Hugmyndasmiðir sjónvarpsþáttanna The Wire eru David Simon og Ed Burns. Simon var um árabil sakamálafréttamaður hjá Baltimore Sun og þekktur af yfirgripsmikilli rannsóknarblaðamennsku þar á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Viðfangsefni hans tengdust gjarnan undirheimum Baltimore og  þeim félagslegu vandamálum sem það samfélag á við að etja. Í starfi sínu lagði Simon sig fram um að kynnast undirheimum borgarinnar jafnframt því sem hann kom sér upp samböndum innan lögreglunnar. Simon hefur einnig gefið út skáldsögurnar The Corner og A Year on the Killing Streets sem sjónvarpsþættirnir Homicide: Life on the Street (1993­–1999) voru byggðir á. Ed Burns starfaði sem lögreglumaður í Baltimore í 30 ár og fékkst mest við eiturlyfja- og morðmál. Við gerð þáttanna fengu þeir til liðs við sig fólk sem þekkir til á ýmsum vígstöðvum innan borgarsamfélagsins.
Auk þess sem þáttaraðirnar hafa unnið til fjölda verðlauna, þar á meðal BAFTA og Emmy, hafa þeir verið rómaðir fyrir gefa raunsanna mynd af veruleika margra bandarískra borga.
The Wire gerist í Baltimore og fylgst er með mörgum þáttum samfélagsins, frá mörgum sjónarhornum. Sögusviðið er þó fyrst og fremst fátækrahverfin í Austur- og Vestur-Baltimore.
Þar eru eiturlyfin markaðsráðandi, jafnvel allsráðandi. Þeir efstu í fæðukeðju þess geira eru ósnertanlegir. Tengsl þeirra og ítök í stjórnmálum borgarinnar eru margslungin.  Æðstu menn í lögreglu og réttarkerfinu tengjast síðan pólitíkinni. Inn í þetta fléttast barátta stjórnmálamannanna og yfirmanna lögreglunnar við að halda tölfræðinni í lagi, hvað varðar glæpatíðni, morð og handtökur í borginni, til að halda störfum sínum og/eða virðingarstöðum. Þetta vilja þeir þó helst gera án þess að hrófla við hinum „ósnertanlegu“ í glæpaheiminum, oft vegna tengsla sem mega ekki komast í hámæli. Það er áberandi að tölfræðin er mikilvægari í stjórnskipulaginu en raunveruleg velferð þegnanna. Oft er þráðum eigin hagsmuna og spillingar fylgt og þá kemur í ljós hvað raunverulega stjórnar samfélaginu.

Spillt samfélag
Í fyrstu þáttaröð er myndað rannsóknarteymi innan lögreglunnar. Nokkrum vandræðamönnum úr lögregluliðinu er smalað saman í afskekkt húsnæði með lélegan aðbúnað. Þar eiga þeir að þykjast rannsaka einn eiturlyfjahringinn. Þetta er sýndarverkefni af hálfu yfirmanna þar sem ákveðin mál sem tengjast genginu hafa komist í hámæli sem er óþægilegt fyrir yfirvöld. Meðlimir rannsóknarteymisins eru ekki taldir líklegir til að ná árangri. Innan um reynast vera nokkrir ágætir rannsakendur sem komast að ýmsu áhugaverðu en þurfa í framhaldinu að kljást við vanvirkt og spillt réttarkerfi.

Omar Little
Omar Little, ein áhugaverðasta persóna þáttanna

Áhorfandi veit alltaf hvað er að gerast á öllum vígstöðvum. Veit því miklu betur en lögreglumennirnir hvað gangsterarnir eru að gera og hvað er að hreyfa við pólitíkinni á hverjum tíma. Persónur eru marglaga og allar hafa þær sína kosti og galla. Vegferð hvers og eins í gegnum þessar fimm þáttaraðir er margbreytileg. Margir eru fyndnir. Örlög annarra gríðarlega harmræn. Allar persónurnar eiga sér góðar og slæmar hliðar, góða og slæma daga. Og þeir sem eru réttu megin laganna eru alls ekki endilega „betri manneskjur“ en meðlimir glæpagengjanna.

Þættirnir bera þess nokkur merki að höfundur og hugmyndasmiður þeirra skuli hafa fengist við skáldsagnagerð. Haldið er um marga þræði í gegnum hverja þáttaröð, og nokkra í gegnum alla þættina, þó framvindan sé nokkuð heildstæð. Stóra samhengið er til staðar þó fylgst sé með mörgum og ólíkum persónum innan þess. Það þýðir hins vegar ekkert að horfa á þættina öðruvísi  en að sjá hverja þáttaröð frá upphafi til enda. Ekkert frekar en hægt er að sleppa úr kafla í lestri skáldsögu.

Samélagið sem sýnt er í The Wire er áberandi karllægt. Kvenpersónur í þáttunum hafa þurft að laga sig að karlaveldinu í valdakerfi Baltimore, hvort sem þær starfa innan stjórnkerfis, lögreglu eða glæpagengja, og finna sér tilgang innan þess. En testósterónið ræður ríkjum og stjórnar samfélaginu í smáu og stóru. Útkoman er viðbjóður og vitleysa.

Reykjavík – Baltimore?
Fljótt á litið virðist veruleiki þáttanna ólíkur Reykjavíkurborg í dag en hliðstæðurnar eru samt of margar til að framhjá þeim verði litið. Spilling, frændhygli, tölfræði í forgangi frekar en velferð íbúanna… Líklega er kominn tími til að borgaryfirvöld í Reykjavík horfi aftur á The Wire og rifji upp hvernig á ekki að stjórna borg.

 Sigríður Lára Sigurjónsdóttir,
doktorsnemi í almennum bókmenntum


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *