Rauðar bækur í bókaskáp

Stafrænt Ísland

Allir kannast við að hafa einhvern tímann langað til að lesa einhverja ákveðna íslenska bók en ekki getað nýtt sér bókasöfn eða bókabúðir til að nálgast efnið.  Ef hugmyndin um stafræna endurgerð allra íslenskra bóka verður að veruleika þá verður hægt að setjast fyrir framan tölvuna eða nýta aðra tækni til að tengjast veraldarvefnum og lesa allt það íslenska efni sem hugurinn girnist.  Hugmyndin er góð og nú þarf að vinna markvisst að því að greiða úr vandamálum sem eðlilega skapast þegar ný tækni er tekin í notkun.

Ekki er hægt að líta fram hjá því að notkun á stafrænu efni er í örum vexti og fyrirtæki eins og Amazon, Sony og Apple hafa hannað og sent frá sér tæki sem auðveldar lestur stafræns efnis til muna.  Umræðan um að endurgera allar íslenskar bækur stafrænt er ekki ný af nálinni, til að mynda setti Landsbókasafn sér stefnu um stafræna endurgerð árið 2006, sem var svo endurskoðuð árið 2008, og hefur safnið sett upp vefina Tímarit.is og Bækur.is. Skólavefurinn hefur unnið að vefnum Lestu.is og útgefendur hinna ýmsu tímarita setja efni sitt á stafrænt form. Umræðan núna snýst um að skanna allt útgefið íslenskt efni til ársins 2000 og hefur Brewster Kahle, stofnandi Internet Archive, boðið tæknibúnað til að skanna inn efnið ásamt fjármagni.  Heildarfjöldi íslenskra bóka nær ekki 50.000 eintökum og Kahle heldur því fram að 12 manneskjur ættu að geta lokið skönnuninni á 2 árum.  Íslenskir útgefendur, höfundar og aðrir sem hafa eitthvað með bókamarkaðinn að gera hafa hér tækifæri til að nýta sér þessa nýjung af krafti til að kynna efni sitt á þennan sífellt vinsælli hátt.

En prentútgáfa íslensks efnis er atvinnu- og peningauppspretta.  Til þess að verkefnið um stafræna endurgerð íslensks efni gangi upp þarf að móta lagalegt umhverfi sem allir geta sætt sig við.  Ef hægt verður að komast í allt íslenskt efni á vefnum er auðvitað möguleiki á því að sala prentaðra eintaka dragist saman enn.  Útgefendur þurfa þó varla að hafa miklar áhyggjur, það er langt í að fólk kjósi tæknina algjörlega fram yfir bókina í prentuðu formi.  Útgefendur gætu frekar hrósað happi, vinsælustu bækurnar yfirtaka dýrt hillupláss í verslunum en á netinu er hægt að auglýsa allt efni útgefandans.  Nú þegar hafa nokkrir útgefendur hafið sölu á bókum á netinu og hægt væri að ganga lengra og líta á stafrænt íslenskt efni sem auðlind frekar en tap. Tæknilega séð er hægt að setja upp varnir og læsingar til að höfundarvarið efni sé ekki misnotað á vefnum þó það sé opið til aflestrar.  Rafrænt bókasafn er líka möguleiki.  Þá er sett upp rafrænt útlánakerfi og getur lánþegi halað niður bókinni frá rafræna bókasafninu, en þegar lánstíminn er runninn út þá eyðist skjalið.  Þar með er líka komið í veg fyrir að höfundar tapi, því þeir fá t.d. greitt úr bókasafnssjóði ásamt því að fá greitt fyrir rafræna fjölföldun á efninu.  Það er að sjálfsögðu ekki ljóst hver áhrif stafrænnar endurgerðar yrðu á bókasöfn en ólíklegt er að bókasöfn muni heyra sögunni til.  Bókaverðir yrðu heldur aldrei útdautt fyrirbæri, eins og bensíntitturinn varð þegar fólk gat fengið ódýrara bensín með því að dæla sjálft.  Hvort sem bókasafn er rafrænt eða ekki þarf umsjón með því.   

Það er hæpið að bækur í prentuðu formi hverfi af sjónarsviðinu þó svo þær verði tiltækar á netinu.  Nýrri tækni sem auðveldar lestur og dreifingu íslenskra bóka ber að fagna og betra er að vinna markvisst að lausnum á þeim vandkvæðum er skapast heldur en að kvarta yfir öllum mögulegum göllum.

Árný Lára Karvelsdóttir,
Meistaranemi í Menningarfræði


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *