Fyrstu verðlaun í textasamkeppni

Aðalheiður fyrir framan verðlaunatextann
Aðalheiður fyrir framan verðlaunatextann

Tilgangurinn með ferð minni var að safna fyrir prófessorinn dæmum um tvítölu, skrá þau niður ítarlega með upplýsingum um viðmælendur, svo sem heimkynni þeirra, aldur og stöðu. Söfnunin yrði að eiga sér stað í dreifbýli, því það var vitað mál að tvítalan lifði þar betur en í borgunum, þar sem hún var um það bil að deyja út.

Þar sem ég sat í þröngum lestarklefanum á leið minni til Ljubljana braut ég mjög heilann um það hvernig ég ætti að standa að söfnuninni. Takmarkið væri jú að ná á blað sem flestum setningum sem fælu í sér hina víkjandi tvítölu, það er að segja orðin við (nf.), okkur (þf. og þgf.) og okkar (ef.) í stað hinna algengari beygingarmynda vér, oss og vor. Samsvarandi orðmyndir í annarri persónu yrðu þá þið, ykkur og ykkar, í stað þér, yður og yðar. Skyndilega flaug mér í hug þetta snilldarráð: Ég skyldi skrifa niður auglýsingu, og fá hana birta í útbreiddasta dagblaði Slóvena! Ég bretti upp ermarnar, setti mig í  skriftarstellingarnar og hripaði niður auglýsingu sem hljóðaði svo: „Vel stæður Frakki auglýsir eftir landsbyggðarstúlku með hjónaband í huga. Vinsamlegast skrifið niður og sendið á neðangreint póstfang helstu upplýsingar um yður sjálfa, sem og hugmynd yðar um hjónabandið og samvistir hjóna“.

Það þurfti ekki að spyrja að árangrinum. Bréfin hrönnuðust upp og tugir kvenna tjáðu þar væntingar sínar til hjónabandsins, og ýmist skrifuðu þær við myndum eða vér myndum, við svæfum eða vér svæfum, heimili okkar eða heimili vort og svo framvegis. Dásamlegt! Nú þurfti ég ekki annað en að bæta við nokkrum viðtölum við karlmenn, svo að prófessorinn yrði ánægður.

Bréfin voru mörg hver tilfinningaþrungin og sneisafull af draumum um betra líf og bætta þjóðfélagsstöðu. Eitt bréfanna bar þó af, bæði hvað varðaði tvítölunotkun og hugmyndir um sambúð karls og konu. Þessu bréfi svaraði ég, og með þeim hætti tókst mér að ná kynnum við verðandi eiginkonu mína. Ég sneri því til baka, og býsna lukkulegur með árangurinn. Einhleypingurinn fyrrverandi hugsar nú í tvítölu.

Aðalheiður Guðmundsdóttir,  aðjúnkt í þjóðfræði á Félagsvísindasviði.
Textinn hlaut fyrstu verðlaun í textasamkeppni Hugvísindasviðs.



Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *