Hauskúpa
Höfuðkúpa manns úr kirkjugarðinum í Viðey sem ber þess merki að hann hafi verið með sárasótt.

Segja má að fornleifafræði geti verið einstaklega þversagnakennt fag.  Sem dæmi má nefna að fornir ruslahaugar eru algengt rannsóknarefni fornleifafræðinga og þeir gripir sem í þeim finnast eru notaðir t.d. til að varpa ljósi á efnahag, innflutning eða verklag.  Þversögnin felst í því að það sem er verið að rannsaka er ekki það sem fólk notaði, heldur það sem fólk henti.   Þversögnin er þó sjaldan eins mikil og í mannabeinarannsóknum.  Hægt er að lesa ýmislegt úr fornum mannabeinum, t.d. greina kyn, lífaldur, álag, erfðir, breytingar af völdum sjúkdóma og svo lengi mætti telja. Þó að algeng spurning til beinafræðingsins sé „úr hverju dó þessi?”, þá er það sjaldnast dauði einstaklingsins sem fornleifafræðingurinn hefur áhuga á, heldur líf hans. Í þessu felst þversögnin: mannabeinarannsóknir ganga út á að nota safn af látnum einstaklingum til að fjalla um samfélag hinna lifandi.  Það segir sig sjálft að beinagrindasafn getur ekki endurspeglað nákvæmlega aðstæður í því samfélagi sem það er komið úr.  Ekki frekar en að hægt væri að nota úrtak úr hópi þeirra sem létust á síðasta ári í Reykjavík til að fjalla um lífskjör og heilsufar á höfuðborgarsvæðinu.  Slík rannsókn myndi draga upp skakka mynd af aðstæðum í samfélaginu.

Reykjavík árið 1876
Reykjavík árið 1876 eftir Aage Nielsen-Edwin

Það eru nokkrir þættir sem hafa þarf í huga þegar túlka á niðurstöður rannsókna á fornum beinasöfnum. Einn af þeim er það sem nefnt hefur verið dulin áhrif mismunandi áhættubreytileika.  Þetta hugtak snýr að því að einstaklingunum sem mynda beinagrindasafn hefur verið mismunandi hætt við sjúkdómum og dauða. Munurinn getur stjórnast af ýmsum þáttum, t.d. erfðum, félagslegum aðstæðum eða tímabundnum breytingum. Þetta þýðir að ekki er hægt að nýta söfn til að meta nýgengi sjúkdóma þar sem ómögulegt er að vita hversu margir voru í hættu á að veikjast eða deyja og hversu lengi sú hætta varði.  Sem dæmi um þetta er rannsókn á smitsjúkdómum í beinagrindum frá 18.-19. öld í Viðey og Reykjavík annars vegar og frá 11.-13. öld á Hofstöðum í Mývatnssveit hins vegar.  Í þeirri rannsókn kom í ljós að engin í Hofstaðasafninu var með greinanlegan smitsjúkdóm á móti 11% af Reykjavíkursöfnunum (berklar og sárasótt).  Í fljótu bragði mætti áætla að þetta þýddi einfaldlega að á Reykjavíkursvæðinu á 18.-19. öld hafi verið veikara fólk en í Mývatnssveit á miðöldum.  Þetta stenst hins vegar ekki, og eru nokkrar ástæður fyrir því.  Í fyrsta lagi eru allir sjúkdómar sem greina má af mannabeinum langvinnir, þ.e. fólk þarf að vera veikt lengi til að sjúkdómurinn geti haft áhrif á bein.  Þetta þýðir að ekki er hægt að greina þau tilfelli þar sem einstaklingur deyr fljótlega eftir að hafa veikst. Sjúkdómurinn greinist bara í þeim sem eru nógu heilsuhraustir þegar þeir veikjast til að lifa með sjúkdóminn í langan tíma.  Í öðru lagi er mikilvægt að skilja sjúkdóminn sem fjallað er um.  Berklar og sárasótt eru hvorttveggja þéttbýlissjúkdómar.  Til að smitsjúkdómur verði landlægur þarf hver einstaklingur sem smitast að smita að minnsta kosti einn annan.  Smitleiðir berkla og sárasóttar eru þess háttar að þeir þurfa stóra og þétta byggð og þeir gátu því ekki orðið landlægir fyrr en þéttbýlismyndun hófst.  Upp úr miðri 18. öld hófst þéttbýlismyndun í Reykjavík.  Íbúafjöldi margfaldaðist á nokkrum áratugum og sama má segja um komu skipa (og þar með tækifærum til að bera sjúkdómana inn í samfélagið).  Hátt hlutfall berkla og sárasóttar í Reykjavík á 18.-19. öld endurspeglar því breytta samfélagsgerð frekar en almennt heilsufar.  Það að þessir sjúkdómar greinist ekki á Hofstöðum segir okkur heldur ekki mikið um almennt heilsufar í Mývatnssveit á miðöldum.  Ekki er ólíklegt að þar hafi alist upp kynslóðir sem voru með lélegt ónæmi fyrir þessum smitsjúkdómum, þannig að hafi berklar eða sárasótt borist í sveitina þá hafi þeir sem veiktust látist áður en sjúkdómarnir fóru að hafa áhrif á bein.  Í raun er ekki hægt að greina á milli þeirra sem veiktust aldrei og þeirra sem létust fljótlega eftir smit.

Annað sem þarf að hafa í huga er hugmyndin um stöðugt samfélag.  Stöðugt samfélag, þar sem dánar- og fæðingartíðni er alltaf eins og alltaf er jafnvægi í aldurs- og kyndreifingu er auðvitað ekki til.  Hinsvegar ganga allar lýðfræðilegar athuganir á beinagrindasafni, t.d. um dánartíðni ungbarna eða kynjahlutfall, út frá slíkum stöðugleika. Þetta helgast af því að oftast þarf að eiga við allt safnið sem eina heild, og er því horft á þá sem dóu, stundum á löngu tímabili, sem einn stöðugan hóp.  Þetta verður meðal annars til þess að faraldrar týnast. Sem dæmi má nefna niðurstöður rannsókna á berklum í 11.-12. aldar beinagrindasafninu frá Skeljastöðum í Þjórsárdal.  Þar voru 7% með berkla.  Sú niðurstaða virðist stangast á við það sem þegar hefur komið fram.  Við getum verið nokkuð viss um að ekki var þéttbýliskjarni í Þjórsárdal snemma á miðöldum.   Það er líklegra að berklafaraldur hafi geisað í Þjórsárdal en að 7% Þjórsárdæla hafi þjáðst af berklum í þau um 100 ár sem kirkjugarðurinn var í notkun. Fjöldi berklasjúklinga á Skeljastöðum er því merki um tímabundið ástand, að þessir einstaklingar hafi allir smitast í sama faraldrinum.  Það er því ekki tilviljun að þeir tveir einstaklingar frá Skeljastöðum sem eru lengst gengnir með sjúkdóminn voru báðir um tvítugt þegar þeir veiktust. Þeir hafa verið nógu hraustir til að lifa með sjúkdóminn nógu lengi til að hann hefði áhrif á beinin.

Það er ekki einfalt að draga ályktanir af rannsóknum á sjúkdómum í fornum beinagrindasöfnum þar sem þau eru aldrei bein samsvörun við lifandi samfélag.  Markmiðið með þessum pistli er að benda á, að með því að hafa í huga þær breytur sem geta haft áhrif á þá einstaklinga sem mynduðu beinasafnið og vera meðvituð um að ýmsa þætti getum við ekki þekkt, þá er hægt að nýta slík söfn til að segja hluta sögu þess samfélags sem þau eru komin úr.

Hildur Gestsdóttir,
doktorsnemi í fornleifafræði

Þessi pistill er að mestu leyti byggður á eftirfarandi greinum:

Hildur Gestdóttir. 2009. Sögur af beinagrindum. Árbók Hins Íslenzka fornleifafélags 2008-2009: 123-142.

Wood, James W., Milner, George R., Harpending, Henry C. & Weiss, Kenneth M. 1992. The osteological paradox. Problems of inferring prehistoric health from skeletal samples. Current Anthropology, 33, 343-370.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *