[container]

Um höfundinn
Jón Karl Helgason

Jón Karl Helgason

Jón Karl Helgason er prófessor í Íslensku sem öðru máli við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann hefur skrifað fræðibækur og -greinar, fengist við þýðingar og komið að ritstjórn tímarita, bóka og vefja á Netinu. Sjá nánar

Geisladiskurinn Búum til börn með hljómsveitinni Moses Hightower er tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Tónlist sveitarinnar má flokka sem r&b (rytma og blús) eða djass-fönk en í söngnum bregður líka fyrir falsettu tilþrifum sem þóttu smart á diskótímabilinu.

Diskurinn vekur upp minningar um svokallaðar blökkumjólkunarmyndir (e. blaxploitation), verk á borð við Shaft og Foxy Brown sem drengir af minni kynslóð gátu séð í bíói á áttunda áratugnum. Aðalpersónurnar eru þeldökkir, hárprúðir harðjaxlar eða langleggjaðar svartar þokkadísir sem láta sér fátt fyrir brjóstum brenna. Funk- og sálartónlist er þarna allsráðandi. Myrki eðaltöffarinn Moses Hightower sem sveitin dregur nafn sitt af og sungið er um á lokalagi disksins – „draumur kvenna og martröð þorparans“ – er reyndar af annarri ætt. Um er að ræða persónu sem ruðningskappinn Bubba Smith lék í myndunum um Lögreguskólann (Police Academy) á níunda og tíunda áratungum.

ShaftBúum til börn er tilnefnd fyrir framúrskarandi textagerð. Bassaleikarinn Andri Ólafsson og hljómborðsleikarinn Steingrímur Karl Teague bera ábyrgð á henni en meðal þess sem þeir gera að yrkisefni er hverful gæfan, ægileg örlög bankabókar í kjölfar hrunsins og líðan perlukafarans í mannhafinu. Þetta eru sígild yrkisefni en þeir félagar eiga í svo innilegu sambandi við móðurmálið að r&b taktar tónlistarinnar verða íslenskari en fjallkonan þegar upp er staðið.

Á köflum minna textarnir á Spilverk þjóðanna sem átti líka sitt blómaskeið um miðjan áttunda áratuginn. „Í borginni standa göturnar hálfauðar og ráðhúsið það húkir hnípið, alltof stórt en pasturslítið – endurnar sjálfdauðar“ er upphafið á texta lagsins “Bílalest út úr bænum“. Í niðurlagi slá höfundar reyndar á aðra strengi þegar þeir segja: „Og um í sólskininu sveima flugurnar. Þær leggja kollhúfur og bjóða góðan dag.“ Má ekki greina þarna endurróm af lýsingu eldra skálds á lömbunum sem „leika við hvurn sinn fingur“?

Það lag sem fléttar skemmtilegast saman íslenskri tungu og framandi fönki ber titilinn „Allt í góðu lagi“ en það snýst um útblásna sjálfsmynd hins annars hógværa hljómborðsleikara:

„Afsakið, má ég segja nokkur orð? Þó ég sé ekki vanur að trana mér fram þá get ég látið mig hafa það í þeim tilgangi að koma að að á dæmigerðum degi er ég

í meira stuði en hrökkáll,
handsterkari en Jón Páll,
hættulega viðsjáll

– það er ég. Hver?

Skírnarnafn: Steingrímur. Ættarnafn: Teague.
Fagmannleg þjónusta og áhrifarík.
Takmarkað framboð en eftirspurn slík
að röðin nær út fyrir Stór-Reykjavík …

og það er alltígóðulagi með dæmigerðan dag.

Ég kann á dömunum handtökin:
Ég fæ öll síðustu rólóin.
Kaldastur jafningja klakanum á,
eitraðri og sætari en asesúlfam-k.

Já, þetta er dæmigerður dagur:

Eitt núll, stöngin inn.
Þú veist að ég er aðalsykurpabbinn þinn.“

Hér er að mörgu að hyggja. Vísað er í auglýsingar Hersey’s fyrirtækisins („Elskarðu einhvern nógu mikið til að gefa honum síðasta Rollo-bitann þinn?“), enska slangurhugtakinu Sugar Daddy er snarað á íslensku, og svo er rætt um sætuefnið asesúlfam-k. Þessar vísanir vekja grun um að Steingrímur sé ekki sá kvennablómi sem hann þykist vera. Að sögn netdoktorsins er asesúlfam-k ekki aðeins talið geta valdið krabbameini heldur er það í þeim flokki sætuefna sem veita enga orku. Sykurpabbi vísar með líkum hætti gjarnan til eldri manns sem er svo múraður að hann telur sér í loðnu lófanna lagið að verða áskrifandi að ástaratlotum yngri manneskju. Þekkta lýsingu á hálf-misheppnaðri útgáfu þessarar manntegundar er að finna í lagi Jackson 5, Sugar Daddy, frá 1971: „I wanna be your Sugar Daddy / Give you honey all my money,“ segir ljóðmælandi en fátt bendir til að múturnar beri tilætlaðan árangur. Alltígóðulagi?

Ekki misskilja mig: þeir Steingrímur & Andri eru skínandi dægurlagaskáld og textarnir þeirra eru löðrandi í dásamlega einlægri sjálfsíróníu. Ég greiddi þeim mitt atkvæði ef ég gæti.

 [/container]

Deildu


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *